Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Icelandair Group síðdegis í dag. Þar kemur fram að félagið mun leigja húsnæðið til loka árs 2023 fyrir núverandi starfsemi, en stefnt er að því að flytja höfuðstöðvarnar á Flugvelli í Hafnarfirði þar sem félagið er með hluta starfsemi sinnar.
Á næstu þremur árum verður byggt við núverandi húsnæði á Flugvöllum og starfsemi félagsins í Reykjavík sameinuð þeirri sem er í Hafnarfirði.
Bogi Nils Bogason forstjóri segir að um rekstrarhagræðingu sé að ræða sem muni styrkja lausafjárstöðu félagsins á krefjandi tímum. Þá sé spennandi uppbygging fram undan sem tekur mið af þörfum starfsemi félagsins til framtíðar.
„Ég tel að sameining starfsstöðva okkar á höfuðborgarsvæðinu muni án efa stuðla að öflugra samstarfi milli deilda, meiri starfsánægju og auknum árangri. Það verður jafnframt ótvíræður kostur að færa höfuðstöðvar félagsins nær Keflavíkurflugvelli,“ er haft eftir Boga í fréttatilkynningu.
Ársuppgjör félagsins verður birt þann 8. febrúar 2021 þar sem nánar verður gert grein fyrir sölunni.