Beinum útsendingu frá íþróttaviðburðum hefur snarfækkað vegna útbreiðslu kórónuveirunnar eins og gefur að skilja. Til að mæta því hafa Stöð 2 Sport og hliðarrásir verið dagskrársettar með nýju dagskrárefni og endursýningum af safnefni til að stytta íþróttaþyrstum stundirnar.
Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.
Sportið í kvöld er á dagskrá Stöðvar 2 Sports á þriðjudags-, miðvikudags- og fimmtudagskvöldum klukkan 20.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á þþsjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.
Í Sportinu í kvöld verður Ólafur Kristjánsson gestur en hann mun fara ítarlega yfir tímabilið 2010 þegar hann stýrði Breiðabliki til Íslandsmeistaratitils í fótbolta karla í fyrsta og eina sinn. Til viðbótar við Sport-þættina kennir ýmissa grasa á Stöð 2 Sport í dag. Má þar nefna úrslitaleiki úr Meistaradeild Evrópu, þátt um bestu bresku leikmennina í spænsku 1. deildinni í fótbolta, sögufræga leiki úr enska bikarnum í fótbolta og frábæran þátt af Atvinnumönnunum okkar þar sem Halldór Helgason snjóbrettakappi er heimsóttur.
Stöð 2 Sport 2
Fótboltinn verður í aðalhlutverki á Stöð 2 Sport 2 þar sem meðal annars má sjá bikarleik Chelsea og Liverpool frá því í mars, úrslitaleiki úr Meistaradeild Evrópu og leik Barcelona og Inter í vetur.
Stöð 2 Sport 3
Sýndir verða þættir um sígilda leiki úr enska bikarnum fram yfir hádegi á Stöð 2 Sport 3. Þar verða svo sýndar styttar útgáfur af sígildum leikjum úr úrvalsdeild karla í íslenska boltanum, og leikir úr úrslitum Dominos-deildar karla í körfubolta frá því í fyrra og frá árinu 2013.
Stöð 2 eSport
Á rafíþróttastöðinni Stöð 2 eSport verður La Liga mótið í FIFA 20 þar sem keppa þekktir leikmenn úr spænsku 1. deildinni og NBA- og NFL-deildunum. Einnig verður sýnd viðureign KR White og Fylkis frá því í gær í Vodafone-deildinni, og leikir Íslands við Skotland og Norður-Írland í FIFA 20 þar sem landsliðsmaðurinn Birkir Már Sævarsson var annar þeirra sem héldu um fjarstýringuna fyrir Íslands hönd.
Stöð 2 Golf
Ryder-bikarinn verður áberandi á Stöð 2 Golf en þar verður sýnt frá lokadeginum 2018, 2016 og 2014, auk fleira efnis.