Einn greindist með kórónuveiruna síðasta sólarhringinn, samkvæmt nýuppfærðum tölum á Covid.is. Því hafa nú 1.799 greinst með veiruna hér á landi. Smitið greindist hjá Íslenskri erfðagreiningu.
Fjórir eru nú á sjúkrahúsi vegna Covid-19 og enginn er á gjörgæslu. Í einangrun eru 72, en þeim fækkaði um tíu á milli daga, og 577 eru í sóttkví. Nú hafa 1.717 manns náð bata og 19.253 lokið sóttkví. Alls hafa verið tekin 50.406 sýni og bættust rúmlega fjögur hundruð við á milli daga.
Tíu manns hafa látist í faraldrinum til þessa.
Upplýsingafundur almannavarna vegna veirunnar er á sínum stað klukkan 14 í dag. Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, Alma Möller landlæknir og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fara yfir stöðu mála með tilliti til Covid-19 hér á landi.
Gestur fundarins verður Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands.