Körfubolti

Burstaði pabba sinn í sögulegum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Feðginin Dave og Maureen Magarity fylgdu sóttvarnarreglum fyrir leik.
Feðginin Dave og Maureen Magarity fylgdu sóttvarnarreglum fyrir leik. Twitter/@HCrossWBB

Maureen Magarity fór heldur betur illa með föður sinn í fyrsta uppgjöri þjálfarafeðgina í sögu fyrstu deildar bandaríska háskólakörfuboltans.

Maureen Magarity stýrði liði Holy Cross til 80-46 stórsigurs á liði Army um helgina. Leikurinn og úrslitin væru kannski ekki mikið fréttaefni ef að sagan hefði ekki verið skrifuð í umræddum leik.

Þetta er í fyrsta sinn í sögu efstu deildar háskólakörfuboltans þar sem faðir og dóttir þjálfa á móti hvoru öðru.

Dave Magarity átti þó fá svör við liði dóttur sinnar en hann fær tækifæri til að hefna strax um næstu helgi þegar liðin mætast aftur.

Það fylgir þó sögunni að aðrir fjölskyldumeðlimir fengu ekki að mæta á þennan sögulega leik vegna strangra sóttvarnarreglna.

Maureen Magarity hóf þjálfaraferil sinn sem aðstoðarþjálfari hjá föður sínum og unnu þau þar saman fjögur tímabil.

Dave Magarity heldur upp á 71 árs afmælið sitt og hafði lengstum þjálfað strákalið. Hann tók hins vegar við Army kvennaliðinu árið 2006 þegar þjálfari þess, Maggie Dixon, lést skyndilega.

Dixon hafði áður boðið dóttur hans aðstoðarþjálfarastöðu hjá liðinu en Maureen var þá bara 25 ára gömul. Þau unnu því saman í nokkur ár áður en hún fékk sitt fyrsta aðalþjálfarastarf. Leiðir liða þeirra lágu svo saman í fyrsta sinn um helgina.

Maureen Magarity er 39 ára gömul og er á sínu fyrsta ári með lið Holy Cross. Hún hafði áður þjálfað hjá New Hampshire skólanum í tíu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×