Körfubolti

NBA dagsins: Besta liðið gefur ekkert eftir og James tók fram úr Chamberlain

Sindri Sverrisson skrifar
Donovan Mitchell treður boltanum í sigrinum á Atlanta Hawks í nótt.
Donovan Mitchell treður boltanum í sigrinum á Atlanta Hawks í nótt. Getty/Todd Kirkland

Utah Jazz er með besta sigurhlutfallið það sem af er leiktíð í NBA-deildinni í körfubolta og í NBA dagsins má meðal annars sjá hvernig liðið fór með Atlanta Hawks í nótt.

Utah Jazz er með besta sigurhlutfallið það sem af er leiktíð í NBA-deildinni í körfubolta og í NBA dagsins má meðal annars sjá hvernig liðið fór með Atlanta Hawks í nótt.

Svipmyndir úr leiknum, sigri LA Lakers á Denver Nuggets, og tíu bestu tilþrif næturinnar má sjá í NBA dagsins hér að neðan.

Klippa: NBA dagsins 5. febrúar

Atlanta hefur mætt LA Lakers, LA Clippers og Philadelphia 76ers, sem eru í toppbaráttunni með Utah, en Lloyd Pierce þjálfari Atlanta er á því að Utah sé best þeirra:

„Utah er besta liðið sem við höfum mætt á þessu ári, og ég legg ríka áherslu á orðið „lið“,“ sagði Pierce.

Utah skorar liða mest utan þriggja stiga línunnar en Jordan Clarkson setti niður fimm þrista í nótt og skoraði alls 23 stig. Bojan Bogdanovic skoraði 21 stig og Donovan Mitchell 18. Liðið hefur unnið 17 leiki en tapað fimm það sem af er leiktíð.

Árangur Lakers er litlu síðri en liðið hefur tapað sex leikjum og vann sinn sautjánda sigur í nótt, og þann þriðja í röð. Lakers unnu Denver Nuggets 114-93 í uppgjöri liðanna sem léku til úrslita í vesturdeildinni í fyrra.

LeBron James skoraði þrefalda tvennu (27 stig, 10 fráköst, 10 stoðsendingar) í 96. sinn á ferlinum og komst upp í þriðja sæti listans yfir flest stig úr opnum leik (ekki af vítalínunni) í NBA-deildinni.

James komst upp fyrir Wilt Chamberlain á listanum þegar hann fór upp í 12.682 stig með körfu í fyrsta leikhluta. Aðeins Kareem Abdul-Jabbar (15.837 stig) og Karl Malone (13.528) hafa skorað fleiri stig úr opnum leik á ferli sínum í NBA.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×