Handbolti

Eyjamenn hafa ekki tapað leik í Mosfellsbænum í 2336 daga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Kristjánsson skorar fyrir ÍBV á móti Aftureldingu í Mosfellsbænum.
Kári Kristjánsson skorar fyrir ÍBV á móti Aftureldingu í Mosfellsbænum. Vísir/Daníel Þór

ÍBV liðið heimsækir Aftureldingu í Olís deild karla í handbolta í kvöld en Eyjamenn hafa geta treyst á það að undanfarin ár að ná í stig að Varmá.

Eyjamenn hafa nú leikið sjö deildarleiki í röð í Mosfellsbænum án þess að tapa og hafa ennfremur unnið fimm af þessum taplausu leikjum sínum.

Í síðustu sjö heimaleikjum Aftureldingar á móti ÍBV í Olís deildinni þá hafa Mosfellingar aðeins haft tvö stig upp úr karpinu á móti tólf stigum sem hafa farið í burtu með Eyjamönnum.

Eyjamenn hafa ekki tapað deildarleik í Mosfellsbænum síðan að þeir töpuðu þar 27. september 2014. Síðan eru liðnir 2336 dagar eða með öðrum orðum sex ár, fjórir mánuðir og 22 dagar.

Síðasti þjálfari Eyjaliðsins til að tapa í Mosfellsbænum var Gunnar Magnússon en hann er einmitt þjálfari Aftureldingarliðsins í dag.

Afturelding vann leikinn 24-22 þar sem Eyjamenn fengu tækifæri til að jafna metin í 23-23 fimm mínútum fyrir leikslok. Það tókst ekki og Gunnar Malmquist innsiglaði sigurinn á vítalínunni.

Gunnar Malmquist er enn leikmaður Aftureldingar í dag og einn fárra leikmanna liðsins sem þekkir það að vinna lið ÍBV.

Eyjamenn unnu reyndar leik i úrslitakeppninni á sama tímabil en sá leikur fór fram 8. apríl 2015. En frá og með haustinu 2015 hefur Mosfellingum ekki tekist að vinna ÍBV liðið á Íslandsmóti, hvorki í deild né úrslitakeppni.

Leikur Aftureldingar og ÍBV í kvöld er fyrsti leikurinn í tíundu umferð og hefst klukkan 18.00. Leikurinn verður sýndur beint á Stöð 2 Sport og hefst útsendingin klukkan 17.50.

Síðustu deildarleikir Aftureldingar og ÍBV að Varmá:

  • 2019-20
  • ÍBV vann 6 marka sigur (32-26) - 9. febrúar 2020
  • 2018-19
  • Jafntefli (28-28) - 17. október 2018
  • 2017-18
  • ÍBV vann 4 marka sigur (27-23) - 14. september 2017
  • 2016-17
  • ÍBV vann 7 marka sigur (31-24)- 5. mars 2017
  • ÍBV vann 5 marka sigur (34-29)- 2. febrúar 2017
  • 2015-16

    Jafntefli (28-28) - 31. mars 2016
  • ÍBV vann 2 marka sigur (23-21) - 3. október 2015
  • 2014-15
  • Afturelding vann 2 marka sigur (24-22) - 27. september 2014



Fleiri fréttir

Sjá meira


×