Mikil skjálftavirkni var norðan við Grindavík í nótt en engar vísbendingar eru um að kvika sé að safnast undir því svæði. Óróapúls mældist í um tuttugu mínútur við Fagradalsfjall skömmu eftir miðnætti. Í kjölfarið jókst virknin á Reykjanesi og var stærsti skjálfti næturinnar 5,0 að stærð klukkan tvö í nótt um þrjá kílómetra vestsuðvestur af Fagradalsfjalli.
Sex skjálftar hafa nú mælst um og yfir 3,0 að stærð frá klukkan 6:00 í morgun, sá síðasti við Fagradalsfjall klukkan 11:49. Einar segir virknina við Grindavík koma til vegna kvikugangsins undir Fagradalsfjalli sem sé að troða sér undir jarðskorpuna.
„Það veldur þrýstingi, hefur áhrif á svæðið utan við sig og veldur spennubreytingum við Grindavík sem leiðir til skjálftanna þar en það eru engar vísbendingar sem við sjáum í gögnum um að það sé kvika að safnast saman annars staðar en við Fagradalsfjall.“
Enn sé ekki hægt að útiloka að það gjósi og greinilegt að kvikugangurinn undir Fagradalsfjalli sé enn í myndun.
Megi gera ráð fyrir fleiri hrinum
Fram kemur í tilkynningu frá vísindaráði almannavarna það sé samdóma álit vísindamanna að um sé að ræða tímabil þar sem kvika flæðir inn í jarðlög undir Fagradalsfjalli.
„Við það myndast spenna í norður-suður sprungum austan og vestan við umbrotasvæðið. Þegar næg spenna hefur myndast, þá hrökkva sprungurnar og við það koma skjálftahrinur. Eftir þær kemur slökun og tímabil minni skjálfta þar til spennan verður aftur of há og svipuð hrina kemur.“
Þá segir að gera megi ráð fyrir því að ef gangurinn haldi áfram að myndast næstu daga og vikur megi eiga von á slíkum áhlaupum og jarðskjálftahviðum nokkrum sinnum.
Fréttin hefur verið uppfærð.