Innlent

Ekkert ferðaveður og Holtavörðuheiði lokað

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Skafrenningur er í Mosfellsdal og ólíklegt að nokkur sé í þeim hugleiðingum að tjalda.
Skafrenningur er í Mosfellsdal og ólíklegt að nokkur sé í þeim hugleiðingum að tjalda. Vísir/Vilhelm

Vetrarfærð er í flestum landshlutum og víða ekkert ferðaveður. Hvassviðri er um allt vestanvert landið og víða skafrenningur og blint. Vesturlandsvegur er lokaður fyrir umferð bæði um Kjalarnes og Holtavörðuheiði. Veðurstofan er með gular veðurviðvaranir í gildi fyrir vestan- og norðvestanvert landið.

Snjóþekja og stórhríð er á Steingrímsfjarðarheiði og ekkert ferðaveður. Ófært er á Klettshálsi og lokað á Þröskuldum og Dynjandisheiði að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar. Á sunnanverðri heiðinni, í Pennusneiðingnum og þar fyrir neðan, er mjög blautur og grófur vegur sem getur verið hættulegur litlum bílum.

Þungfært og skafrenningur og óvissustig vegna snjóflóðahættu er í gildi á Siglufjarðarvegi. Veginum verður lokað klukkan 16:30.

Hættustigi vegna snjóflóðahættu hefur verið lýst yfir í Ólafsfjarðarmúla í dag klukkan 16 í dag. Veginum hefur verið lokað síðan þá.

Liðsmenn KA/Þórs í Olísdeildinni í handbolta sneru við í Staðarskála eftir bíltúr frá Akureyri enda Holtavörðuheiði lokuð. Leik liðsins gegn HK í Kópavogi hefur verið frestað til morguns.

Á Norðausturlandi er víðast hvar snjóþekja eða hálka og töluverður skafrenningur. Lokað er vegna veðurs á Fljótsheiði. Á Austurlandi eru hreindýrahjarðir víða við veg og hafa meðal annars sést á Fagradal, við álverið á Reyðarfirði, í Álftafirði og Lóni. Sömuleiðis sást hreindýrahjörð á Breiðamerkursandi á Suðausturlandi.

Spáin er áfram slæm á vestanverðu landinu og um norðvestanvert landið. Er gul viðvörun í gildi á svæðinu þar til í fyrramálið og fram eftir degi á morgun á Vestfjörðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×