Körfubolti

LeBron er ekki lengur líklegastur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joel Embiid hefur spilað frábærlega með liði Philadelphia 76ers í NBA deildinni í vetur.
Joel Embiid hefur spilað frábærlega með liði Philadelphia 76ers í NBA deildinni í vetur. AP/Matt Slocum

Það nýr leikmaður nú sigurstranglegastur í kjörinu á mikilvægasta leikmanni NBA deildarinnar í körfubolta á þessari leiktíð.

Framan af nýju ári þá hefur LeBron James hjá Los Angeles Lakers verið líklegastur til að hljóta verðlaunin yfir þann besta í NBA-deildinni en svo er ekki lengur. LeBron James og Lakers liðið hafa ekki verið alltof sannfærandi síðustu vikurnar.

Á nýjustu líkindalistum þá er Joel Embiid hjá Philadelphia 76ers kominn upp í efsta sætið.

Joel Embiid er með 30,2 stig, 11,6 fráköst og 3,3 stoðsendingar í leik en Philadelphia 76ers liðið hefur unnið 67 prósent leikja sinna og er efst í Austurdeildinni.

Embiid er líka að skjóta yfir fimmtíu prósent utan af velli (52,1%), yfir 40 prósent úr þriggja stiga skotum (41,6%) og yfir 85 prósent úr vítum (85,6%)

LeBron James er samt í öðru sæti yfir þá líklegustu en hann er með 25,8 stig, 8,0 fráköst og 7,8 stoðsendingar í leik. Los Angeles Lakers liðið hefur gefið eftir í meiðslum Anthony Davis og er nú í þriðja sætinu í Vesturdeildinni með 65 prósent sigurhlutfall.

Næstu menn á eftir þeim eru Nikola Jokic, miðherji Denver Nuggets, Luka Doncic, bakvörður Dallas Mavericks, Stephen Curry, bakvörður Golden State Warriors og Giannis Antetokounmpo, framherji Milwaukee Bucks.

Giannis Antetokounmpo hefur unnið þessi eftirsóttu verðlaun undanfarin tvö tímabil en LeBron James vann þau á sínum tíma fjórum sinnum.

A þeim sem hafa veðjað að þessa kosningu þá hafa tuttugu prósent veðjað á sigur Joel Embiid en mestur peningur hefur aftur á móti verið settur á LeBron James.

NBA deildin hófst aftur í nótt eftir hlé vegna Stjörnuleiksins en deildarkeppninni lýkur síðan um miðjan maí og úrslitakeppnin hefst á því að nokkur lið fá tækifæri til að spila sig inn í úrslitakeppnina áður en hún hefst formlega 22. maí.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×