Körfubolti

Fékk rúmlega sex milljóna króna sekt og bann fyrir gyðingahatur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Meyers Leonard kaus að standa á meðan aðrir leikmenn Miami Heat krupu á hné þegar þjóðsöngur Bandaríkjanna var fluttur fyrir leiki í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í fyrra.
Meyers Leonard kaus að standa á meðan aðrir leikmenn Miami Heat krupu á hné þegar þjóðsöngur Bandaríkjanna var fluttur fyrir leiki í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í fyrra. getty/Mike Ehrmann

Meyers Leonard, leikmaður Miami Heat í NBA-deildinni í körfubolta, hefur verið dæmdur í einnar viku bann og fékk sekt upp á fimmtíu þúsund Bandaríkjadali, eða rúmlega sex milljónir íslenskra króna, fyrir niðrandi ummæli um gyðinga.

Leonard lét ummælin falla þegar hann streymdi beint frá sjálfum sér að spila tölvuleikinn vinsæla Call of Duty á mánudaginn.

Miami Heat fordæmdi ummæli Leonards og hann baðst seinna afsökunar á þeim. Leonard má ekkert vera viðloðandi lið Miami næstu vikuna.

Leonard lék aðeins þrjá leiki með Miami áður en hann meiddist illa á öxl. Ljóst er að þau meiðsli halda honum frá keppni út tímabilið.

Leonard hefur mikinn áhuga á tölvuleikjum og er með mörg þúsund fylgjendur á Twitch streymissíðunni þar sem fólk fylgist með honum spila.

Eftir að hann lét ummælin falla í vikunni hafa fjölmörg tölvuleikjafyrirtæki slitið samstarfi sínu við hann.

Leonard, sem er 29 ára, kom til Miami frá Portland Trail Blazers. Hann var í liði Miami sem komst í úrslit NBA á síðasta tímabili.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×