Handbolti

Vann heims- og Ólympíumeistarana í fyrsta leiknum sem spilandi landsliðsþjálfari

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kiril Lazarov fagnar sigrinum á Danmörku í fyrsta leiknum sínum sem spilandi landsliðsþjálfari Norður-Makedóníu.
Kiril Lazarov fagnar sigrinum á Danmörku í fyrsta leiknum sínum sem spilandi landsliðsþjálfari Norður-Makedóníu. epa/GEORGI LICOVSKI

Kiril Lazarov hefði ekki getað byrjað feril sinn sem þjálfari norður-makedónska handboltalandsliðsins betur en Norður-Makedónía sigraði heims- og Ólympíumeistara Danmerkur, 33-29, í undankeppni EM 2022 í gær.

Lazarov var ráðinn þjálfari norður-makedónska liðsins eftir HM í Egyptalandi. Hann er þó enn í fullu fjöri sem leikmaður og er því spilandi landsliðsþjálfari sem er líklega einsdæmi í dag.

Norður-Makedónía hefði ekki getað fengið erfiðari andstæðing í fyrsta leiknum undir stjórn Lazarovs, nýkrýnda heimsmeistara Danmerkur.

Lazarov og strákarnir hans voru óhræddir gegn ógnarsterkum Dönum og unnu fjögurra marka sigur, 33-29. Auk þess að stýra Norður-Makedóníumönnum til sigurs skoraði Lazarov fjögur mörk í leiknum.

Þetta var fyrsta tap Dana síðan þeir lutu í lægra haldi fyrir Íslendingum í fyrsta leik sínum á EM 2020.

Lazarov er án nokkurs vafa langbesti leikmaður sem Norður-Makedónía hefur átt. Hann leikur nú með Nantes í Frakklandi eftir að hafa verið lengi á Spáni, hjá stórliðum Atlético Madrid og Barcelona. Lazarov hefur unnið Meistaradeildina í tvígang og er markahæsti leikmaður í sögu keppninnar.

Norður-Makedónía er með fullt hús stiga á toppi riðils sjö í undankeppni EM. Liðið mætir Danmörku aftur á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×