Skjálftinn fannst vel víða um land, á höfuðborgarsvæðinu, Selfossi og víðar, eftir upplýsingum sem fréttastofu hafa borist.
Í tilkynningu frá Veðurstofunni kemur fram að um sé að ræða stærsta skjálfta sem orðið hefur á svæðinu síðan 12. mars, fyrir tveimur dögum, en þá varð skjálfti sem einnig var fimm að stærð klukkan 07:43.
Samkvæmt tilkynningunni hefur enginn órói mælst í kjölfarið.
Annar minni jarðskjálfti varð á svipuðum slóðum kl. 12:51. Samkvæmt frumniðurstöðum Veðurstofunnar mældist hann 3,2 að stærð.
Talsverð virkni í nótt
Í nótt mældust sjö skjálftar að stærð þrír eða meira á Reykjanesskaga, sá stærsti 4,2. Sá varð klukkan 4:40.
Hann átti upptök sín á um 3,6 kílómetra dýpi um 2,7 kílómetra suðsuðvestur af Fagradalsfjalli klukkan 4:40 samkvæmt sjálfvirkum mælingum Veðurstofu Íslands.
Aðrir stærri jarðskjálftar sem mældust í nótt voru á bilinu 3,0 til 3,7 að stærð. Upptök þeirra allra voru sunnan við Fagradalsfjall.
Síðustu tvo sólarhringana hafa tæplega 2.200 jarðskjálftar mælst. Af þeim hafa 56 verið stærri en þrír.