Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hefur beint þeim tilmælum til fólks sem ætlar að fara að virða fyrir sér gosið í Geldingadal að gera sér grein fyrir ákveðnum staðreyndum. Um margra klukkutíma gönguferð er að ræða, kalt er í veðri, slydda og gasmengun nærri gosstöðvunum. Þá geri gos ekki boð á undan sér og nýjar sprungur geta myndast.
Guðni Hans Sigþórsson hjá Björgunarfélagi Hafnarfjarðar stóð vaktina á Suðurstrandavegi austan við Grindavík í dag þar sem hann hafði eftirlit með umferð á svæðinu. Hann var til viðtals í beinni útsendingu í hádegisfréttum Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar í dag.
„Við erum ekki að banna fólki að koma fótgangandi en við mælum gegn því. Það er lítið sem ekkert að sjá, þetta er mjög slæm yfirferð að fara hérna og það getur verið mikil hætta á gasmengun hérna,“ sagði Guðni. „Vegurinn er lokaður sökum sigs í veginum og Vegagerðin er með veginn lokaðan vegna þess.“

Rætt sé við alla sem mæti á svæðið og varað við aðstæðum. Þrátt fyrir þetta hefur fjöldi fólks haldið leið sinni áfram til að berja gosið augum.
„Fólk fer hérna bara inn á sinni eigin ábyrgð en við höfum verið að stoppa þá sem að við náum til og mælum gegn því að fólk sé að fara hérna. Bæði það að þetta er ekkert sérstaklega gott færi, þetta er náttúrlega bara bratt fjalllendi og hraun en síðan er fólk misvel búið. Það er alveg dæmi um það að fólk sé að koma hérna á gallabuxum og strigaskóm sem er ekki alveg besti búnaður til þess að vera að fara í þetta,“ segir Guðni.
Hann segist ekki hafa nokkurn skilning á ævintýraþörf fólks sem kýs að fara að gosinu illa búið. „Maður sér þetta ekki neitt nema þú sért kominn langleiðina að þessu og þegar þú ert kominn að þessu þá ertu bara kominn inn á stórhættulegt svæði. Þannig að ég mæli bara með því að fólk horfi á þetta bara á netinu, að það sé bara skásti kosturinn,“ segir Guðni.
