Hins vegar virðist sem hraunrennslið í öðrum af minni gígunum tveimur hafi orðið kröftugra og spurning hvort gígarnir tveir hafi sameinast í einn stærri.
„Þetta voru upphaflega þrír gígar, þessi stóri og tveir litlir. Svo allt í einu í gær þá fór annar þessi minni að verða kröftugri þannig að það kemur í ljós í dag hvort þeir hafi sameinast í einn,“ segir Sigþrúður.
Annars sé staðan í gosinu svipuð og verið hefur. Frá miðnætti hafa svo mælst 114 jarðskjálftar á Reykjanesskaga en þeir hafa allir verið í minni kantinum.
Stríður straumur fólks var að gosstöðvunum í gær en eftir klukkan 17 var svæðinu lokað og það rýmt vegna hættu á gasmengun þegar vindur datt niður.
Rætt var um það að í staðan í dag gæti orðið svipuð og því ekki ráðlagt að leggja í göngu til að berja gosið augum. Sigþrúður segir stöðuna án efa verða metna nú í morgunsárið með tilliti til veðurspárinnar og hvort óhætt sé þá að opna svæðið á ný. Almannavarnir taki ákvörðun um það.
Búið sé að koma veðurstöð fyrir á gosstöðvunum og eins og staðan sé akkúrat núna í morgunsárið þá mælist vindur átta til níu metrar á sekúndu og allt að ellefu metrar á sekúndu í hviðum.
Hér fyrir neðan má sjá beina útsendingu RÚV frá gosstöðvum.