Sigvaldi Arnar Lárusson, yfirvarðstjóri lögreglunnar á Suðurnesjum, segir hafa verið margt um manninn á svæðinu í gær. Þá var talsverð umferð um svæðið í morgun og á þriðja hundrað bílar á Suðurstrandarvegi á tíunda tímanum.
„Mér sýnist svona við talningu sem er gerð fyrir ekki löngu síðan, þá er 251 bíll á Suðurstrandarveginum,“ sagði Sigvaldi við fréttastofu í morgun.
Lokað fyrir umferð klukkan eitt
Lokað verður fyrir umferð að gossvæðinu klukkan eitt í dag. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum tók ákvörðun um það eftir samráðsfund með viðbragðsaðilum.
Samkvæmt upplýsingum frá Davíð Má Bjarnsyni, upplýsingafulltrúa hjá Landsbjörg, er ástæðan versnandi veðurskilyrði á svæðinu. Í kjölfar lokunarinnar verður ráðist í að rýma svæðið við gosstöðvarnar.
Fólk taki nesti, vasaljós og batterí
Sigvaldi hvetur fólk sem hyggst ferðast í Geldingadali á næstunni að vera vel búið. Um sé að ræða fjallgöngu að vetrarlagi, en ekki léttan göngutúr.
„Þetta er náttúrulega bara fjalllendi og fólk þarf að vera mjög vel búið. Það þýðir ekkert að ætla sér að taka bara einhverja síðdegisgöngu upp að þessu eftir ísrúntinn. Þetta er bara vetrarfærð og í gærkvöldi var þetta bara til dæmis mannbroddafæri þarna upp að.“
Sigvaldi ítrekar fyrir fólki að taka með sér nesti, vasaljós og jafnvel auka hleðslu fyrir síma sína.
Lögregla leitaði í nótt að konu á svæðinu sem hafði orðið viðskila við gönguhóp sinn laust fyrir miðnætti í gærkvöldi. Að sögn Sigvalda var konan köld og í geðshræringu þegar hún fannst á fimmta tímanum í nótt. Hún hafi þó, sem betur fer, komið í leitirnar.
„Það er svo mikið myrkur að vasaljós er bara nauðsynlegt þarna. Það er mikið myrkur og veðrið breytist fljótt. Það er mjög auðvelt að tapa áttum,“ segir Sigvaldi.