Innlent

Hádegisfréttir Bylgjunnar

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
vísir

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, bindur vonir við að hægt verði að slaka á aðgerðum um miðjan apríl. Tveir greindust með kórónuveiruna innanlands í gær og voru báðir utan sóttkvíar. Við heyrum í Þórólfi í hádegisfréttum.

Þá er rætt við Bjarna Ingimarsson, aðstoðarvarðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, um björgunaraðgerð slökkviliðsins í gærkvöld þegar kona fékk tvo metra niður í brunn nærri Lágafellskirkju í Mosfellsbæ. Konan var orðin köld og þrekuð þegar slökkviliðsmenn náðu að bjarga henni upp. Konan hafði þá svamlað í vatni sem var við frostmark. 

Einnig verður fjallað um aðstæður við gosstöðvarnar í Geldingadölum. Opið verður fyrir umferð að gosstöðvunum til klukkan níu í kvöld, líkt og síðustu daga. Yfirlögregluþjónn segir útlit fyrir nokkuð gott veður en ítrekar að staðan á svæðinu sé háð sífelldu endurmati, vegna hættu á gasmengun. Fólki er þá ráðlagt að vera ekki of nálægt hrauninu.

Þá er rætt við teymisstjóra Bjarmahlíðar, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldi á Akureyri, en ný ársskýrsla Bjarmahlíðar er nú komin út. Fimmtíu þolendur ofbeldis tilgreindu að ofbeldið væri af hendi fyrrverandi maka. 

Þetta og meira til í hádegisfréttum Bylgjunnar klukkan 12. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×