Í gegnum Íslandssöguna hafa eldgos verið helsta náttúruógnin og stundum leitt hörmungar yfir þjóðina. Lengi var það áhyggjuefni margra: Hvað ef gos kæmi nú upp á Reykjanesskaga nálægt mesta þéttbýli landsins og aðalflugvellinum?

Núna erum við búin hafa að hafa eldgos í næstum fjórar vikur í bakgarðinum í Grindavík, aðeins átta kílómetra frá næstu húsum byggðarinnar, sem er álíka og vegalengdin milli Hallgrímskirkju og Rauðavatns í Reykjavík.
Grindvíkingar sækja ennþá sjóinn þrátt fyrir eldgos. Í fréttum Stöðvar 2 sáum við að verið var að landa úr togara í höfninni í dag.

„Það truflar engar veiðar og það hafa allir gaman að því að fylgjast með gosinu og tala um það líka,“ segir Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar hf.
Orkuverið í Svartsengi er á fullum dampi.
„Öll starfsemi er bara eðlileg. Við framleiðum rafmagn, heitt vatn og ferskt vatn og veitum því um allt svæðið,“ segir Jóhann Snorri Sigurbergsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá HS Orku, og segir enga hnökra hafa orðið á starfseminni vegna eldgossins.

Á leikskólanum Laut virðist lífið áhyggjulaust.
„Við bara höldum áfram eins og venjulega núna. Það hefur ekki áhrif á börnin eða starfsfólkið. Svo við erum eiginlega bara sultuslök yfir þessu,“ segir Fríða Egilsdóttir, leikskólastjóri í Laut.
Í félagsstarfinu á elliheimilinu hittum við nokkra eldri borgara og spurðum hvort eldgosið væri að trufla gamla fólkið í Grindavík.
„Nei, ekki okkur hérna,“ svarar Birna Óladóttir.
„Ég er bara svolítið hissa á traffíkinni,“ bætir hún við.

-Þið hafið ekki upplifað gosið sem ógn?
„Nei, nei. Ég var bara fegin þegar kom gos. Þá hættu jarðskjálftarnir,“ svarar Guðbjörg Jónsdóttir.
„Þetta er búið að lyfta andanum hér í Grindavík alveg óhemju. Því að fyrir gosið vorum við bara í jarðskjálftum og sumir voru alveg að gefast upp á þeim,“ segir Gunnar Tómasson.

„Eina sem við vorum kannski svolítið stressuð yfir þegar kraðakið var sem mest hérna; maður komst ekki heim til sín út af bílamergð. Þá hugsaði maður með sér: Vonandi verður þetta ekki svona næstu vikurnar eða mánuðina. En þetta hefur allt róast,“ segir Fríða.
„Ég hugsa að þeir sem ekki eru Íslendingar myndu varla trúa því ef maður myndi segja þeim þessa sögu að það væri eldgos hérna hinumegin við hólinn,“ segir Jóhann Snorri.
„Maður kíkir hérna út á kvöldin og býður gosinu góða nótt. Maður er orðinn vanur því að sjá svona bjarma yfir bænum. Maður er svo fljótur að aðlagast,“ segir Fríða.

-En verður gosið kannski til góðs fyrir Grindavík?
„Já, engin spurning. Til góðs fyrir Ísland. Bara svo lengi sem þetta fer ekki úr böndunum, segi ég,“ svarar Gunnar.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2:
Hér má sjá Mývetninga rifja upp Kröfluelda: