Sigur Tindastóls var aldrei í hættu fyrir norðan en lokatölur urðu 117-65. Pétur Rúnar átti þar fínasta leik eftir að hafa verið í vandræðum framan af leiktíð.
„Þetta var hans lang-, langbesta frammistaða á þessu tímabili,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson, sem benti enn fremur á að Pétur Rúnar hafi þurft 34 þriggja stiga skot til að setja fjögur slíkt niður fram að leiknum gegn Þórsurum, en þar setti þar fjóra af fjórum á korteri. Þar með tvöfaldaði hann fjölda þriggja stiga skota sinna sem hittu.
„Þarna kannast maður við hann,“ sagði Teitur Örlygsson.
Kjartan bætti þá við að Pétur hefði verið „gerilsneyddur af sjálfstrausti fyrir þessa COVID-pásu,". Hermann Hauksson tók undir það og hrósaði Pétri fyrir að koma sterkur til baka eftir mótlætið.
„Hann heyrir í okkur tvisvar, þrisvar í viku að tala um að við séum að bíða eftir honum en þarna sýndi hann svo sannarlega hvernig við þekkjum hann best,“ sagði Hermann.
Innslagið um Pétur Rúnar og norðanslaginn má sjá hér að neðan.