Drónaútsendingu Björns Steinbekks frá gosstöðvunum í Fagradalsfjalli hér á Vísi lauk með því að einum drónanum var flogið lágt yfir virkasta gíginn þannig að áhorfendur gátu fylgst með kvikunni í miklu návígi og allt í beinni útsendingu. Dróninn bráðnaði svo að lokum og hrapaði ofan í sjálfan gíginn.
Myndband af atvikinu vakti mikla athygli og birti Björn það einnig á Twitter. Það voru þó ekki allir ánægðir með uppátækið, þar á meðal er Stephen King.
„Sóun á fullkomlega góðum dróna“ skrifaði höfundurinn þegar hann deildi myndbandi Björns.
Svo virðist sem Björn sé sammála og skrifaði hann í athugasemd við færsluna.
„Ég sé það núna. Getur þú fyrirgefið mér?“
Það verður svo bara að koma í ljós hvort að afsökunarbeiðninni verði svarað.
The waste of a perfectly good drone. https://t.co/gTiLjURsrO
— Stephen King (@StephenKing) April 29, 2021
Umrætt atvik má sjá í spilaranum hér fyrir neðan en það hefur verið spilað meira en 220 þúsund sinnum hér á Vísi.