Samkvæmt Xinhua-ríkisfréttastofunni ætla kínversk yfirvöld að senda lítinn hóp tíbetskra leiðsögumanna upp á Everest-fjall þar sem þeir eiga að koma upp línu til að skilja göngumennina að. Ekki liggur fyrir hvort að leiðsögumennirnir eigi að vera á fjallinu til að tryggja að göngumenn sem koma hvor sínu megin upp fjallið haldi fjarlægð.
Reuters-fréttastofan segir heldur ekki ljóst hvernig línan eigi að tryggja aðskilnað á tindinum þar sem mikil þröng er á þingi. Tindurinn er lítið annað en lítið snjóskafl þar sem er rétt pláss fyrir nokkra göngumenn og leiðsögumenn á hverjum tíma.
Að minnsta kosti tveir Íslendingar eru nú staddir á Everest-fjalli, þeir Heimir Fannar Hallgrímsson og Sigurður Bjarni Sveinsson. Þeir hafa verið í hæðaraðlögun í rúman mánuð en ætlun þeirra er að komast á topp Everest, hæsta fjalls jarðar, til að styrkja Umhyggju, félag langveikra barna.
Þeir fara upp fjallið frá Nepal en kínversk stjórnvöld hafa ekki leyft neinum erlendum göngumönnum að klífa upp frá Tíbet frá því að kórónuveirufaraldurinn hófst í byrjun síðasta árs.