Öryggismiðstöðin á tvo sérútbúna stóla sem komast yfir erfitt landslag með fatlað fólk og þá sem geta einhverja hluta vegna ekki komist á tveimur jafnfljótum. Stólarnir voru meðal annars notaðir til að koma 24 einstaklingum upp á Esju fyrir fáeinum árum þegar Öryggismiðstöðin fagnaði tuttugu ára afmæli. Dagur Steinn fór í þá prufuferð.
Markmiðinu náð
Það hefur verið mikill áhugi hjá fötluðu fólki að komast upp að gosi og margar fyrirspurnir hafa borist Öryggismiðstöðinni um að fá stólana að láni.
„Leiðin var skoðuð fyrr í vor og ekki talin með góðu móti fær. Á dögunum voru svo gerðar verulegar endurbætur á svæðinu, stígar lagfærðir og gerðir aðgengilegri. Það var því ákveðið að fara í prufuferð upp að gosi og sjá hvort leiðin sé að opnast fyrir fólk sem notar hjólastól,“ segir Ómar Örn Jónsson, markaðsstjóri Öryggismiðstöðvarinnar.
Dagur Steinn fór upp að gosinu ásamt sjálfboðaliðum, fjölskyldu og vinum. Ferðin gekk vonum framar þrátt fyrir ekta íslenskar aðstæður, sól og haglél í bland. Hópurinn var um þrjár klukkustundir að komast upp að gosi og til baka. Dagur Steinn segir að það hafi verið mikil stemming að ganga saman þarna upp og hópurinn fékk mikla hvatningu frá öðru göngufólki.
„Frábær dagur og markmiðinu náð,“ segir Dagur Steinn um ævintýrið.

„Það er ljóst að breytingar og lagfæringar á stígum eru mjög til bóta fyrir þá sem eiga erfiðara með að komast upp að gosi. Vonandi verður unnið áfram að betrumbótum og meiri möl borin í stígana en þeir eru nokkuð leirkenndir á köflum sem gerir þá sleipa í vætusömu veðri. Prufuferðin gefur alla veganna mjög góð fyrirheit um að hægt verði að nýta þessa öflugu stóla í sumar til að koma sem flestum sem vilja njóta gossins og náttúrunnar þangað upp,“ segir Ómar Örn.
Dagur Steinn deildi nokkrum vel völdum myndum úr ferðinni á Facebook.