Átta utanríkisráðherrar Norðurskautsráðsins ásamt utanríkisráðherra Grænlands, Lögmanni Færeyja og fulltrúum frumbyggja víðs vegar af norðurslóðum tóku þátt í fundi ráðsins í Hörpu í dag.
Segja má að Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands hafi stolið senunni um leið og hann mætti til vinnukvöldverðar ráðherranna í gærkvöldi. Hann mætti einn ráðherra án grímu og heilsaði upp á Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra með því að bjóða honum hnefann. Þegar fréttamaður skaut að honum hvort hann horfði bjartsýnn til fundarins svarði Lavrov að bragði: „Ég er að horfa beint á þig.“
Íslendingar hafa verið í forystu fyrir Norðurskautsráðinu síðast liðin tvö ár. Utanríkisráðherra sagði að hingað til hefðu ráðherrafundir aðeins gefið út stefnuyfirlýsingu til eins árs í senn. En nú þegar tuttugu og fimm ár væru liðin frástofnun ráðsins væri horft tíu ár fram í tíman með aðgerðaáætlun.
„Ég er sérstaklega hreykinn af því að háttsettum embættismönnum ráðsins hefur tekist að ná samkomulagi um fyrstu framkvæmdaáætlun fyrir Norðurskautsráðið. Með áætluninni munum við í fyrsta skipti geta lagt fram leiðarvísir sem tilgreinir störf ráðsins til langs tíma," sagði Guðlaugur Þór.

Sergei Lavrov tók við fundarhamrinum sem Íslendingar gáfu ráðinu á sínum tíma úr hendi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar til næstu tveggja ára. Í formannstíð Íslands hefur verið horft til sjálfbærrar þróunar á mörgum sviðum á Norðurskautinu þar sem í dag búa rúmar fjórar milljónir manna.
Verkefnin hafi meðal annars náð til samfélagsþróunar og réttinda frumbyggja, mengunar hafsins, loftlagsmála, jafnréttis kynjanna og stöðu hinsegin fólks.

Lavrov kynnti ítarlega áætlun Rússa til næstu tveggja ára og sagði að áfram yrði haldið á braut samvinnu til að treysta samband allra aðildarríkjanna.
„Ég vil ítreka að Rússland er tilbúið að vinna með öllum aðildarríkjunum, fastafulltrúum og áheyrnaraðilum og öllum öðrum hagsmunaaðilum að málefnum Norðurskautsins," sagði Lavrov.
Ráðherrarnir undirrituðu síðan Reykjavíkuryfirlýsinguna eins og hún er kölluð hver og einn þar sem þess var gætt að sótthreinsa pennan á milli undirskrifta.