Ekstrabladet greinir frá því að maðurinn sé talinn hafa brotið að minnsta kosti tíu sinnum á dóttur sinni á fjögurra ára tímabili, 2006 til 2010, þegar hún var fimm til níu ára gömul. DV greindi fyrst frá málinu íslenskra miðla.
Í ákæru segir að brotin hafi verið verið framin í skóglendi á Íslandi og í bíl, en önnur í sumarbústað á Fjóni. Í tengslum við kynferðisbrotin eigi maðurinn sömuleiðis að hafa beitt dóttur sína líkamlegu ofbeldi – slegið og sparkað í búk og höfuð hennar og slegið hana með skeiðum og kökukeflum.
Ekstrabladet segir frá því að ákærði sé íslenskur ríkisborgari, en dóttirin dönsk. Maðurinn neitar sök í málinu, en réttarhöld hefjast 2. júní í Svendsborg.
Lögreglu barst fyrst tilkynning um málið í desember 2018, þegar dóttir mannsins tilkynnti um hvað hafi gerst í æsku. Hún er nú tvítug að aldri.
Handtekinn á Spáni
Maðurinn var þá fluttur til Spánar og var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald í hans fjarveru af dönsku lögreglunni. Spænska lögreglan handtók manninn svo í Benissa, skammt frá Alicante, í október á síðasta ári og var hann framseldur til Danmerkur í desember síðastliðinn. Hann hefur verið í gæsluvarðhaldi síðan.
Reiknað er með að aðalmeðferð í málinu standi í sex daga og að dómur falli 17. júní næstkomandi.