Frá þessu greinir Gauti í færslu á Facebook-síðu sinni í dag. Hann sóttist eftir því að leiða lista flokksins í kjördæminu en svo fór að Njáll Trausti Friðbertsson þingmaður bar sigur úr býtum í prófkjöri flokksins sem lauk í gær.
Gauti kveðst auðmjúkur og þakklátur fyrir stuðning og aðstoð þeirra sem lögðu honum lið í baráttunni og þakkar öðrum frambjóðendum fyrir drengilega baráttu. Niðurstaðan sé þó vonbrigði en vilji kjósenda skýr.
„Ég vil einnig þakka þær góðu móttökur sem ég hef fengið í kjördæminu undanfarnar vikur, alla kaffisopana, kruðeríið og spjallið. Á Norður- og Austurlandi býr mikið af öflugu og góðu fólki, um það get ég vitnað fyrstu hendi,“ skrifar Gauti.
„Ég sóttist eftir að leiða listann, það varð ekki og af þeim sökum mun ég ekki sækjast eftir að taka sæti á lista Sjálfstæðisflokksins við kosningar til Alþingis í haust.“