Bitcoin er komið yfir 40.000 Bandaríkjadali í fyrsta skipti frá 21. maí, en um það leyti hrundi virði myntarinnar í kjölfar ummæla sama manns. Þá tilkynnti Musk um að Tesla ætlaði ekki að taka við gjaldmiðlinum á meðan rafmyntargröfturinn væri eins vistskæður.
Nú hefur Musk tekið af allan vafa um að fyrirtækið ætli sér sannarlega að stunda viðskipti með gjaldmiðlinum þegar til þess kemur. Musk brást við þegar suðurafrískur fjárfestir sakaði hann um markaðsmisnotkun með sífelldum ummælum sínum af og á um Bitcoin.
„Þegar staðfesting fæst á skynsamlegri (um 50%) hreinni orkunotkun í rafmyntargreftri með jákvæðum horfum til framtíðar, mun Tesla aftur leyfa millifærslur með Bitcoin,“ skrifaði Musk.
This is inaccurate. Tesla only sold ~10% of holdings to confirm BTC could be liquidated easily without moving market.
— Elon Musk (@elonmusk) June 13, 2021
When there’s confirmation of reasonable (~50%) clean energy usage by miners with positive future trend, Tesla will resume allowing Bitcoin transactions.
Eitt Bitcoin var metið á um 65.000 dali um miðjan apríl en hafði hrunið um helming niður í 32.000 dali 8. júní. Nú gæti horft til betri tíðar fyrir rafmyntina eftir hressilega dýfu.
Fjárfestirinn Paul Tudor Jones ýtti síðan enn á siglingu Bitcoin með ummælum sínum í dag um að hann leitaðist við að eiga alltaf ákveðið mikið af Bitcoin-i í sínu fjárfestingasafni.
Mikil efasemdarbylgja hefur gengið um rafmyntarheiminn undanfarinn mánuð eftir að Elon Musk hratt af stað síðustu dýfu. Þrátt fyrir að hafa hrunið í kjölfar hennar, hefur virði myntarinnar þó aukist um 30% frá upphafi ársins 2021.