Áfram verður leitað að manninum í dag en þegar Vísir náði tali af Gunnari Schram, yfirlögregluþjóni lögreglunnar á Suðurnesjum, voru vaktaskipti í þann mund að eiga sér stað og nýtt björgunarsveitarfólk að taka til starfa.
Hafa leitað kring um allt hraunið
Spurður hvort ekki sé búið að kemba allt svæðið í kring um hraunið síðan maðurinn týndist segir hann:
„Jú, við teljum okkur vera búin að því og eftir að það létti núna í morgun þá hefur þyrlan verið að fara aftur yfir það svæði. En leitarskilyrðin voru ekki góð í nótt, lágskýjað og þoka.“
Hann segir aðallega leitað í kring um það svæði þar sem síðast sást til hans, skammt norður af Stóra Hrúti.
Spurður hvort óttast sé að maðurinn hafi farið út á hraunið sjálft og farið sér að voða segir Gunnar: „Við höfum svo sem ekki haft uppi neinar getgátur um það. Við bara leitum áfram að honum og vonum að hann finnist.“
Hann býst við að töluvert af fólki sæki gosstöðvarnar í dag en telur það ekki trufla störf leitarmanna. „Jafnvel frekar að það sé af hinu jákvæða að hafa mikið af fólki þarna í dag, sem hefur augun opin fyrir einhverju.“