Handbolti

„Ævintýri fyrir okkur fjölskylduna“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Anton Rúnarsson segist líklega hafa leikið sinn síðasta leik fyrir Val og heldur til Þýskalands.
Anton Rúnarsson segist líklega hafa leikið sinn síðasta leik fyrir Val og heldur til Þýskalands. vísir/bára

Anton Rúnarsson, leikmaður Íslandsmeistara Vals í handbolta, er á leið í atvinnumennsku þrátt fyrir að vera 33 ára gamall. Hann segist líkast til hafa leikið sinn síðasta leik fyrir Val.

Anton var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar eftir að þeir tryggðu sér titilinn í úrslitaeinvígi við deildarmeistara Hauka. Anton fer nú út til Emsdetten en hann lék þar áður frá 2014 til 2016.

„Þetta er náttúrulega bara spennandi tækifæri og gaman fyrir mig og fjölskylduna að fá að upplifa þetta aftur, þannig að þetta var eitthvað sem var erfitt að segja nei við þó maður vilji auðvitað vera áfram í Val í góðu umhverfi hér. En þetta var bara aðeins meira ævintýri fyrir okkur fjölskylduna.“ sagði Anton í viðtali við Guðjón Guðmundsson í Sportpakkanum á Stöð 2.

Anton skrifaði undir þriggja ára samning við Emsdetten en það er ekki á hverjum degi sem 33 ára gamall leikmaður fer í atvinnumennsku.

„Nei, nei, það er alveg rétt. Ætli ég sé ekki með þeim elstu sem fara úr íslensku deildinni aftur út en eins og ég segi, maður lifir fyrir handboltann og leggur mikið í þetta. Þegar svona tækifæri koma, að fara aftur út í atvinnumennskuna og í lið sem ég spilaði í og þekki umhverfið, þá var þetta bara of spennandi til að hafna því.“

„Þetta er rosalega flott dæmi þarna úti í Þýskalandi, það er æft tvisvar á dag og bara atvinnumannalið þannig að það þarf að halda vel á spilunum og standa sig, og það ætla ég að gera.“ segir Anton.

Finnst hann vera 23 ára

En hvað sér Anton fyrir sér að vera lengi að?

„Ég fæ þetta frá vinunum og fleirum, hvort maður fari ekki að hætta þessu, en ég er bara ennþá ungur og mér finnst ég bara vera 23 ára. Mér finnst þetta rosalega gaman og legg líf og sál í þetta, æfði eftir því í vetur og er að uppskera núna. Ég er bara 100% on og ætla mér að halda áfram í þessu.“

Anton vann áður Íslandsmeistaratitil með Val 2017 en segir titilinn í ár vera sætari þar sem hann spili líkast til ekki aftur með uppeldisfélaginu.

„Ég verð eiginlega að segja það, þar sem þetta var að öllum líkindum minn síðasti leikur fyrir Val og ég ólst hérna upp. Aldrei að segja aldrei, en ég vissi það að ég þyrfti að leggja mikið í sölurnar til að ná þessu markmiði og það gekk heldur betur eftir. Liðið stóð sig frábærlega, við náðum að landa þessu saman svo þetta var extra sætt.“ segir Anton.

Viðtalið við Anton má sjá að neðan.

Klippa: Anton Rúnarsson úr Sportpakka 4.7.2021

Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×