Árásin er sögð hafa beinst að netþjónum Microsoft sem keyra Microsoft Exchange þjónustu fyrirtækisins, og að hún hafi haft áhrif á um þrjátíu þúsund stofnanir og fyrirtæki um heim allan.
Hakkarar á vegum kínverskra yfirvalda eru í byrjun þessa árs sagðir hafa nýtt sér veikleika í hönnun Microsoft Exchange til þess að koma fyrir svokölluðum bakdyrum inn í kerfið. Bresk yfirvöld telja að ætlunin hafi verið að njósna um notendur forritsins í stórum stíl, en Microsoft Exchange keyrir meðal annars tölvupóst- og dagatalsþjónustu Microsoft.
Í fyrstu er talið að ætlunin hafi verið að nýta veikleikann gegn háskólum, hugveitum og fyrirtækjum sem sérhæfa sig í varnarmálum. Heimildarmenn BBC segja hins vegar að í febrúar hafi tölvuþrjótarnir skipt um gír og deilt upplýsingum um veikleikann. Varð það til þess að tölvuárásin varð mun umfangsmeiri.