Hefð hefur verið fyrir því að hjónin birti myndir af börnum sínum á afmælisdögum þeirra sem Katrín tekur sjálf. Vísir greindi þó frá því í síðustu viku að óvíst væri hvort slík mynd myndi líta dagsins ljós á afmælisdegi Georgs þetta árið.
Þau Vilhjálmur og Katrín voru sögð hafa fengið sig fullsödd af þeirri gagnrýni og stríðni sem sonur þeirra hefur orðið fyrir á netinu undanfarið.
Foreldrarnir hafa þó ekki látið dónaskap fólks á netinu koma í veg fyrir að þau birti mynd af syni sínum í tilefni dagsins.
Á myndinni sem tekin var af Katrínu, sést hinn átta ára gamli prins brosa sínu breiðasta, sitjandi á húddi Land Rover Defender bifreiðar.
Bifreiðin er afar táknræn þar sem tegundin var í miklu eftirlæti hjá langafa Georgs, Fillippusi prins sem lést fyrr á árinu. Sem dæmi hafði hann óskað eftir því að kistu hans yrði ekið til kirkju í Land Rover bifreið í stað hefðbundinnar líkbifreiðar.
Ár er síðan Vilhjálmur og Katrín tilkynntu frumburðinum að einn daginn yrði hann konungur.
Rithöfundurinn Robert Lacy, sem hefur sérhæft sig í bresku konungsfjölskyldunni, greindi frá því í sérstökum kafla í bók sinni Battle of Brothers, hvernig foreldrarnir nálguðust Georg til þess að segja honum fréttirnar.
Þau eru dugleg að mæta með Georg á stórar samkomur og er talið að með því séu þau að undirbúa drenginn undir framtíðarhlutverk sitt.