Innlent

Borgin hefur lofað að drengurinn fái pláss í skóla

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Guðrún Eva Jónsdóttir, móðir drengsins.
Guðrún Eva Jónsdóttir, móðir drengsins. stöð 2

Skóla- og frí­stunda­svið Reykja­víkur­borgar hefur full­vissað móður tólf ára drengs með þroska­hömlun, sem hafði verið synjað um skóla­vist, að hann fái pláss í Brúar­skóla. Móðir hans er viss um að málinu hefði ekki verið reddað á sunnu­degi nema vegna þess að fjallað var um það í fjöl­miðlum.

Rætt var við móðurina Guð­rúnu Evu Jóns­dóttur í kvöld­fréttum Stöðvar 2 í gær. Þar sagði hún frá því hvernig Hjörtur Hlíðar, sonur hennar sem er með ó­dæmi­gerða ein­hverfu og mikla þroska­röskun, hafi ekki fengið inn í Brúar­skóla því þar væri ekki laust pláss. Þau mæðgin fluttu til Reykja­víkur frá Akur­eyri í vor.

Brúar­skóli er skóli fyrir börn sem eiga í al­var­legum geð­rænum-, hegðunar- eða fé­lags­legum erfið­leikum. Þegar Guð­rúnu var til­kynnt um að hann fengi ekki inn þar sótti hún um fyrir hann í hverfis­skóla þeirra, Ár­bæjar­skóla, en fékk einnig höfnun um skóla­vist þar.

„Skólarnir að byrja á mánu­dag og ég veit ekkert hvað verður um barnið,“ sagði hún í gær:

Borgin baðst afsökunar

Í dag hringdi síðan skóla- og frí­stunda­svið í hana og full­vissaði hana um að Hjörtur Hlíðar fengi skóla­vist í Brúar­skóla.

„Það eina sem hún gat ekki lofað mér var að hann gæti byrjað strax á morgun en lofaði að það yrði alla­vega ekki seinna en á þriðju­dag,“ segir Guð­rún Eva.

Hún er auð­vitað á­nægð með út­komuna:

„Þetta er náttúru­lega það sem ég vildi fyrir hann. Hann hefur ekkert að gera með að fara í venju­legan skóla. En ég sótti líka um í Ár­bæjar­skóla því mér ber skylda til að koma barninu í skóla, alveg sama hvar það er. Þannig að ég er mjög sátt,“ segir hún.

Hún segir borgina hafa beðið sig af­sökunar á málinu. „Biðjast af­sökunar á öllu, að það væri ekki búið að hafa sam­band við mig. En ég veit það fyrir víst að hún hefði ekki haft sam­band við mig á sunnu­degi ef ég hefði ekki farið í fréttirnar á laugar­deginum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×