Innlent

Garðabær gefur grænt ljós á bálstofu og athafnahús sem verður opið öllum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Byggingin verður norðan við Vífilsstaðavatn.
Byggingin verður norðan við Vífilsstaðavatn.

Fyrirtækið Tré lífsins hefur fengið heimild hjá Garðabæ til að byggja allt að 1.500 fermetra byggingu norðan við Vífilsstaðavatn, með salarkynnum fyrir athafnir á borð við skírnir, hjónavígslur og útfarir, auk bálstofu.

Þá hyggst fyrirtækið útbúa minningargarð í Rjúpnadal, þar sem hægt verður að jarða ösku ástvina og gróðursetja tré í minningu hins látna. Frá þessu greinir Morgunblaðið en starfsemin er sögð verða óháð öllum trúar- og lífsskoðunum og opin öllum.

Að sögn Sigríðar Bylgju Sigurjónsdóttur, stofnanda og forsvarsmanns fyrirtækisins, stendur til að kaupa líkbrennsluofn frá Þýskalandi, sem verður búinn fullkomnum mengunarvarna- og hreinsibúnaði.

Þá sér hún fyrir sér að fyrirtækið muni taka við hlutverki gömlu bálstofunnar í Fossvogi, sem sé orðin gömul og lúin. Forsvarsmenn fyrirtækisins munu eiga í viðræðum við dómsmálaráðuneytið um að útbúa minningargarða víðar en í Garðabæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×