Skoðun

Hvernig allt á að verða betra

Elín Anna Gísladóttir skrifar

Ég er í framboði og á undanförnum vikum þá hef ég þónokkuð oft bæði fengið spurninguna og séð spurningar sem eru eitthvað á þessa leið: Hvernig ætlið þið að gera allt betra?

Ég hef reynt að svara þessu eins og best verður á kosið hverju sinni. En staðreyndin er sú að það er enginn sem getur gert alla hluti betri. Ef að fólk er að kjósa eftir því prinsippi þá er það að kjósa eftir svarthvítri hugsun. Mögulega jafnvel popúlískri.

Það er nefnilega staðreynd að sama hvað við stjórnmálamenn keppumst við að lofa þá getum við í raun og veru ekki lofað miklu. Þegar á hólminn er komið þá erum við 63, með mismunandi skoðanir, þurfum að finna leið til að mynda meirihluta þar sem oft þarf að gefa eftir ýmis málefni og svo líður tíminn og verkfærin virðast vera ansi mörg til þess að toga og teygja mál og halda þeim í gíslingu svo mánuðum eða jafnvel árum skipti.

Ég held að nálgun fólks ætti frekar að vera sú að kjósa flokka eftir því hvaða gildum það samsamar sig við. Viltu frjálslyndi? Íhaldssemi? Viltu jafnaðarstefnu? Viltu kapítalisma? Viltu að áherslan sé á umhverfismál? Viltu að áherslan sé á jafnrétti? Viltu sjá stjórnmálafólk sem rífst og skammast eða viltu stjórnmálafólk sem hefur það prinsipp að fara í málefnin en ekki manninn og bera virðingu fyrir öðrum?

Skoðanir eru mikilvægar og það skiptir máli að raddir allra heyrist. Ég hvet fólk til þess að kynna sér listana, kynna sér fólkið og kynna sér málefnin. En fyrst og fremst hvet ég fólk til þess að greina hjá sjálfu sér hvað það raunverulega vill. Hverjar eru þínar væntingar til samfélagsins?

Þegar þú veist það þá fyrst ertu að kjósa eftir eigin sannfæringu.

Höfundur skipar 3. sæti á lista Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi.




Skoðun

Sjá meira


×