Umeå byrjaði leikinn betur og þær náðu mest níu stiga forskoti í fyrsta leikhluta. Gestirnir frá Ungverjalandi náðu þó vopnum sínum fljótlega og minnkuðu muninn í tvö stig. Þegar fyrsta leikhluta lauk var staðan 29-25.
Heimakonur náðu aftur góðu forskoti í upphafi annars leikhluta og juku muninn fljótt í tíu stig. Gestirnir minnkuðu aftur muninn, en góður lokakafli fyrir hálfleik skilaði Umeå sex stiga forskoti þegar að gengið var til búningsherbergja.
Ungverjarnir mættu ákveðnir til leiks í þriðja leikhluta, og um miðbik hans tóku þær forystuna í fyrsta skipti í leiknum. Þegar komið var að lokaleikhlutanum var staðan 56-57, Csata í vil.
Sóllilja og félagar gáfust þó ekki upp og ætluðu sér greinilega að berjast til seinasta blóðdropa. Þær náðu forsytunni aftur, og þegar fjórði leikhluti var um það bil hálfnaður var staðan orðin 71-63, Umeå í vil, og allt mögulegt.
Gestirnir reyndust þó sterkari á lokakaflanum og minnkuðu muninn aftur niður í eitt stig, áður en þær tóku forystuna alveg undir blálokin og unnu tveggja stiga sigur, 81-79.
Umeå er því úr leik í Evrópubikarnum. Sóllilja nýtti þann litla spiltíma sem hún fékk í að gefa eina stoðsendingu á liðsfélaga sinn.