Í yfirlýsingu frá Aroni sem hann sendi frá sér í dag fordæmir hann ákvörðunina og sakar stjórn KSÍ um að hafa skipt sér af valinu. Telur hann að KSÍ hafi sett hann til hliðar vegna „krafna sem byggist á óljósum orðrómi“ og þvertekur fyrir að beitt ofbeldi.
„Á samfélagsmiðlum hefur verið til umræðu atburður sem sagt er að hafi átt sér stað í Kaupmannahöfn 2010. Ég hef ekki fengið tækifæri til að ræða málið formlega við KSÍ, eða verið gefinn kostur á standa á rétti mínum gagnvart ávirðingunum, og því sárnar mér þessi fyrirvaralausa ákvörðun um að verða settur út úr liðinu,“ segir í yfirlýsingunni.
Vísar hann til frásagnar sem birtist fyrst í maí en þar segir kona að tveir ónefndir þjóðþekktir Íslendingar hafi nauðgað henni í útlöndum árið 2010.

Tveir landsliðsmenn sakaðir um kynferðisofbeldi
Ómar Smárason, deildarstjóri samskiptadeildar KSÍ, sagði í síðustu viku að sambandinu hafi í byrjun júní borist ábending um að tveir landsliðsmenn væru sakaðir um hafa beitt konu kynferðislegu ofbeldi í landsliðsferð. Átti atvikið að hafa átt sér stað eftir landsleik Danmerkur og Íslands í Kaupmannahöfn í september 2010.
Stjórn KSÍ beitti sér fyrir því í ágúst að Kolbeinn Sigþórsson yrði ekki valinn í leikmannahóp eftir að hann var ásakaður um ofbeldi.
Aðspurður um hvort eitthvað sé til í þeim staðhæfingum Arons að stjórn KSÍ hafi skipt sér af valinu að þessu sinni segir Gísli Gíslason, varaformaður KSÍ, einfaldlega: „Nei.“

Talaði um „utanaðkomandi“ ástæður
Þjálfararnir Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen tilkynntu í dag hvaða leikmenn verða í landsliðshópnum sem mætir Armeníu og Liechtenstein í undankeppni HM karla í fótbolta í október.
Á blaðamannafundinum sagði Arnar að stjórn KSÍ hafi ekki sett sér neinar skorður varðandi valið á landsliðshópnum.
„Aron Einar er ekki valinn í þetta verkefni. Eftir mörg góð samtöl á milli mín, Arons og Eiðs Smára tók ég þá ákvörðun að velja Aron ekki. Ástæðan fyrir því er utanaðkomandi og ég get því miður ekki farið neitt nánar út í það í dag,“ sagði Arnar og bætti við að ástæðurnar ættu eftir að koma í ljós síðar.