Innlent

Stálu kampavínsflöskum og sprautuðu úr þeim í loftið

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Mennirnir stálu þremur flöskum að andvirði 45 þúsund króna. 
Mennirnir stálu þremur flöskum að andvirði 45 þúsund króna. 

Lögreglan á Suðurnesjum fékk á dögunum tilkynningu um þjófnað og skemmdarverk á hóteli í umdæminu en nokkrir menn höfðu þar meðal annars stolið kampavínsflöskum og sprautað úr þeim upp í loftið.

Að því er kemur fram í tilkynningu frá lögreglu stálu mennirnir þremur flöskum að andvirði um 45 þúsund króna. Mennirnir unnu einnig fleiri skemmdarverk og er málið nú til rannsóknar.

Þá fann lögregla í umdæminu fíkniefni og vopn við húsleit í húsnæði en lögregla var þar stödd vegna annars máls. Höfðu þau fengið heimild til leitarinnar og fannst þar meint kannavis og fleiri efni auk hnífs.

Að lokum sinnti lögregla síðan eftirliti með ökumönnum en talsvert var um hraðakstur á síðustu þremur dögum auk þess sem fáeinir voru teknir úr umferð vegna vímuefnaaksturs. 

Einn var á 166 kílómetra hraða á Reykjanesbraut, þar sem hámarkshraði var 90 kílómetrar. Hann var sviptur ökuleyfi til bráðabirgða og á von á 250 þúsund króna sekt.

Annar ökumaður mældist á 151 kílómetra hraða og tveir til viðbótar óku á yfir 130 kílómetra hraða, annar þeirra var aðeins sautján ára. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×