Hvíldar- og matartímar fyrir lægst launuðu félagsmennina eru helsti ásteytingarsteinninn í viðræðum Alþjóðlegs bandalags leikhús- og sviðsstarfsmanna (IATSE) og viðsemjenda þeirra, að sögn AP-fréttastofunnar.
Ef til verkfalls kemur á mánudag yrði það fyrsta landsverkfallið í 128 ára sögu IATSE. Innan vébanda þess eru kvikmyndatökumenn, sviðsmyndahönnuðir, smiðir, hárgreiðslu- og förðunarfræðingar og fleiri. Afgerandi meirihluti félagsmanna samþykkti verkfallsboðun í byrjun mánaðar.
Starfsfólk í kvikmyndaiðnaði hefur lengi kvartað undan gífurlegu álagi og löngum tökudögum. Það fái hvorki nægilega hvíld á vinnutíma né á milli vakta. Talsmenn IATSE segir að þeir sem eru á lægstu laununum nái ekki endum saman.
Streymisveitur eins og Apple, Amazon og Netflix komast upp með að greiða þeim enn lægri laun en kveðið er á um í samningum þar sem þær fengu undanþágur þegar þær komu fyrst fram á sjónarsviðið. Síðan þá eru streymisveitur orðnar að iðnaði sem veltir milljörðum á milljarða ofan.
Bandalag kvikmynda- og sjónvarpsframleiðenda segir hefur sagt að það meti starfsfólk sitt að verðleikum og að það ætli sér að koma í veg fyrir vinnustöðvun í geira sem er enn að ná vopnum sínum eftir verulegar raskanir af völdum kórónuveirufaraldursins.