Elvar Már og félagar í Risunum frá Antwerp heimsóttu Ionikos Nikaias B.C. í Grikklandi í kvöld. Eftir hnífjafnan fyrri hálfleik átti Antwerp magnaðan þriðja leikhluta sem lagði grunninn að sigri gestanna. Antwerp skoraði 33 stig gegn 14 og því kom ekki að sök að liðið hafi tapað fjórða og síðasta leikhluta leiksins, lokatölur 92-81 gestunum í vil.
Elvar Már skoraði átta stig, tók þrjú fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Enginn í liði Antwerp gaf fleiri.
Tryggvi Snær lék ekki mikið framan af leik í leik Hapoel Gilboa Galil og Casademont Zaragoza. Íslenski miðherjinn fékk að láta ljós sitt skína er Zaragoz tókst að koma leiknum í framlengingu.
Þar reyndust gestirnir frá Spáni betri og unnu nauman eins stigs sigur, lokatölur 91-90 Zaragoza í vil. Tryggvi Snær skoraði sex stig, tók fimm fráköst og gaf eina stoðsendingu. Þá blokkaði miðherjinn hávaxni fimm skot í leiknum.
Tryggvi Hlinason blocked a season-high 5 blocks today in their Europe Cup match-up against Hapoel Gilboa Galil! pic.twitter.com/4bnspjVXGI
— BDA Sports INTL (@BDASportsINTL) October 20, 2021