Körfubolti

Þóra Kristín stiga­hæst og Falcon enn með fullt hús stiga

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þóra Kristín fór mikinn í kvöld.
Þóra Kristín fór mikinn í kvöld. AKS Falcon

Íslendingalið AKS Falcon er enn með fullt hús stiga í dönsku úrvalsdeildinni í körfubolta eftir góðan tíu stiga sigur á Åbyhøj IF í kvöld, lokatölur 56-66. Þóra Kristín Jónsdóttir var stigahæst í liði Falcon og þá skilaði Ástrós Lena Ægisdóttir góðu framlagi.

Fyrir leikinn var Falcon á toppi deildarinnar með fullt hús stiga að loknum fjórum leikjum. Í upphafi leiks virtist hins vegar sem Åbyhøj ætlaði að stöðva sigurgöngu gestanna. Heimastúlkur byrjuðu leikinn af krafti og var átta stigum yfir að loknum fyrsta leikhluta, staðan þá 21-13.

Falcon minnkuðu muninn í öðrum leikhluta og munurinn kominn niður í fimm stig er flautað var til hálfleiks. Hvað gerðist í hálfleiknum er óvíst en liðin gátu vart keypt sér körfu í þriðja leikhluta. Hann unnu þó Falcons þó 9-4 og staðan jöfn fyrir síðasta leikhluta leiksins.

Þar slepptu liðin af sér beislinu og Falcons skoruðu 31 stig sem tryggðu liðinu tíu stiga sigur, lokatölur 66-56.

Þóra Kristín var stigahæst í liði gestanna með 18 stig ásamt því að taka fimm fráköst og gefa eina stoðsendingu. Ástrós Lena skoraði fjögur stig og gaf eina stoðsendingu.

Íslendingalið Falcons er því sem fyrr á toppi deildarinnar með fullt hús stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×