Gangverk hefur á undanförnum árum sinnt stórum hugbúnaðarþróunarverkefnum fyrir fyrirtæki á borð við Sotheby’s, sem er stærsta uppboðshús í heimi, fjölmiðlasamsteypuna CBS, lúxusferðaskrifstofuna Lindblad, Kviku banka og nú síðast Homecare, sem er bandarískt fyrirtæki sem fæst við heimahjúkrun.
Döðlur hafa fengist við allt frá auglýsingaherferðum og mörkun yfir í ljósmyndun, sjónvarpsauglýsingar, hönnun á hótelum og veitingastöðum ásamt því að hafa verið í fjölbreyttri vöruþróun á eigin fatnaði, húsgögnum og nú síðast einingahúsinu Hedgehog. Einingahúsin verða áfram undir merkjum Daðla sem Döðlur Modular.
Kaupverðið er trúnaðarmál. Atli Þorbjörnsson, stofnandi Gangverks, segir að hönnun ráði í grundvallaratriðum hvernig stafrænar vörur Gangverks virka. Kaupin á Döðlum séu mikilvægt skref í áframhaldandi sókn Gangverks.
„Frábær stefna og hugbúnaðarþróun getur aldrei bætt upp slæma hönnun. Þess vegna höfum við lagt mikið á okkur til að fá til okkar mjög hæfa hönnuði. Þeir eru órjúfanlegur hluti af okkar vöruþróun, frá upphafi til enda.”
Þróunin í stafrænni vöruþróun kallar á meiri samhæfingu
Hörður Kristbjörnsson, annar eigenda Daðla, segir kaupin rökrétt framhald af áralöngu samstarfi fyrirtækjanna tveggja. „Þróunin í þessum geira kallar á mun meiri samhæfingu í stefnumótun, hönnun og hugbúnaðarþróun. Við höfum alltaf verið lítið fyrirtæki með stórar hugmyndir. Þetta er rétta skrefið fyrir okkur í dag og til framtíðar”.
Gangverk hefur vaxið hratt undanfarin misseri og sprengdi húsnæði sitt í Borgartúni af sér fyrr á árinu. Um þessar mundir er fyrirtækið að koma sér fyrir í nýjum höfuðstöðvum í Ármúla. „Já, fyrirtækið er í örum vexti og það gengur vel. Starfsmenn eru orðnir um það bil 90 talsins og við stefnum á frekari vöxt,” segir Atli og bætir við, léttur í bragði.
„Þekkir þú kannski einhverja snillinga sem vantar vinnu?"
![](https://www.visir.is/i/853DF93B4A1DD2F0C49EC76005DF239B369BE648FA2DF9EBF33DE79AC249FB57_713x0.jpg)
Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.