Það var um miðja framlengingu sem að James kallaði á dómarann Rodney Mott og benti honum á tvo stuðningsmenn Indiana, karl og konu, sem sátu alveg við völlinn. Starfsmenn í höllinni, heimavelli Indiana, mættu á svæðið og eftir að hafa rætt við Mott leiddu þeir parið í burtu frá vellinum.
Konan setti upp ýktan sorgarsvip en karlinn brosti er þau gengu í burtu, eins og sjá má á myndskeiðinu hér að neðan.
LeBron unhappy with some fans courtside in Indiana pic.twitter.com/1Ud3B69G1E
— The Action Network (@ActionNetworkHQ) November 25, 2021
James vildi ekki gefa upp hvað það var nákvæmlega sem að parið sagði sem varð til þess að hann krafðist þess að þeim yrði vísað í burtu. Það hefði hins vegar klárlega farið yfir strikið.
„Það er ekki hægt að láta það viðgangast þegar fólk er með fruntalegt látbragð og orðbragð,“ sagði James eftir leik.
„Það er munur á því að styðja sitt lið, og vilja ekki að hitt liðið vinni, og svo því að segja eitthvað sem ég myndi aldrei segja við stuðningsmann og þeir ættu aldrei að segja við mig,“ sagði James.
James skoraði 39 stig í leiknum, í 124-116 sigri. Indiana sá ekki til sólar eftir að parið hafði verið rekið í burtu en liðið skoraði alls aðeins fjögur stig í framlengingunni.

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.