Körfubolti

Sá einhenti vann troðslukeppnina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hansel Enmanuel með verðlaunin sín.
Hansel Enmanuel með verðlaunin sín. Instagram/@enmanuelhansel

Einn strákur sló heldur betur í gegn á City of Palms körfuboltamótinu sem er almennt talið vera stærsta mótið hjá menntaskólum Bandaríkjanna.

Sá um ræðir heitir Hansel Enmanuel og þetta væri kannski ekkert sérstaklega fréttnæmt nema fyrir þær sakir að það vantar á hann aðra höndina.

Hansel Enmanuel er að spila körfubolta með einni hendi á meðan allir aðrir inn á vellinum eru með báðar hendur til taks.

Hann missti hendina þegar hann var sex ára gamall. Veggur hrundi þá á hann og hann var fastur undir honum í tvo klukkutíma. Það þurfti að taka hendina af til að bjarga lífi hans.

Fyrirmyndir Enmanuel eru LeBron James og Kevin Durant og hann gaf aldrei upp vonina um að verða körfuboltamaður þrátt fyrir fötlun sína.

Það höfðu ekki margir skólar sýnt honum áhuga þrátt fyrir að hafa verið með 26 stig, 11 fráköst og 7 stoðsendingar að meðaltali og hjálpað Life Christian Academy að vinna Mið-Flórída titilinn í menntaskólaboltanum.

Enmanuel hlýtur samt að fá boð um skólastyrki eftir frammistöðu sína meðal þeirra bestu á hans aldri á umræddu City of Palms körfuboltamóti.

Enmanuel vann meðal annars troðslukeppni mótsins og það voru tilþrif í lagi eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×