Kórónuveiran leynist víða og helgihald yfir hátíðarnar hefur verið með óhefðbundnu sniði þetta árið. Í fyrra lögðust messur nánast alfarið af en í ár hefur prestum verið unnt að dreifa boðskapi Jesú Krists „í persónu,“ þó með allnokkrum takmörkunum.
„Venjulega náttúrulega þá notar maður sögnina að fjölmenna er það ekki, þegar maður hvetur fólk til að mæta í stórum stíl. En við vorum að grínast með það í Neskirkju að við værum svona frekar að hvetja fólk til að fámenna þessi jólin,“ segir sóknarpresturinn og bætir við að unnt sé að taka á móti kirkjugestum með notkun hraðprófa í samræmi við gildandi takmarkanir.
Sem dæmi tóku um sjö hundruð manns þátt í helgihaldi á aðfangadag í Neskirkju árið 2019 en þetta árið voru ekki nema tæplega fimmtíu sem mættu í jólamessuna. Skúli segist þó glaður yfir því að hafa fengið að taka á móti kirkjugestum: „Við venjulegar kringumstæður hefði það auðvitað fyllt mann af angri og depurð. En þetta var náttúrulega bara í ljósi aðstæðna,“ segir Skúli.
„Þetta er talsvert minna heldur en í meðalári en í fyrra auðvitað þá var allt samkomuhald bannað yfir jólin. Þá sat maður bara með hendur í skauti og ég er náttúrulega þakklátur fyrir það að við skulum þó geta efnt til þessarar dagskrár í kirkjunni. Þó lítil hafi verið og fámenn,“ segir sóknarpresturinn.