Handbolti

Þjálfari Portúgals upplifir martröð Guðmundar

Sindri Sverrisson skrifar
André Gomes skoraði fjögur mörk í sigri gegn Íslandi á HM í Egyptlandi fyrir tæpu ári.
André Gomes skoraði fjögur mörk í sigri gegn Íslandi á HM í Egyptlandi fyrir tæpu ári. EPA-EFE/Khaled Elfiqi

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari karlalandsliðs Íslands í handbolta, hefur ítrekað talað um mikilvægi þess að leikmenn liðsins haldist heilir fram yfir EM í janúar. Hjá Portúgal, fyrsta mótherja Íslands, hafa sterkir hlekkir dottið út.

Vinstri skyttan André Gomes, fyrrverandi lærisveinn Guðmundar hjá Melsungen í Þýskalandi, missi að öllum líkindum alveg af EM vegna meiðsla í fæti. Hann staðfesti þetta í samtali við portúgalska miðilinn O Jogo.

Gomes skoraði til að mynda fjögur mörk fyrir Portúgal í sigrinum gegn Íslandi á HM í Egyptalandi í byrjun þessa árs.

Áður var ljóst að línumaðurinn Luís Frade, leikmaður Evrópumeistara Barcelona, og hægri hornamaðurinn Pedro Portela, sem leikur með Nantes í Frakklandi, myndu missa af EM.

Eins og O Jogo orðar það þá þýðir þetta að Paulo Jorge, þjálfari Portúgals, getur ekki valið þrjá leikmenn sem hann hefði annars svo sannarlega reitt sig á í leikjunum á EM.

Ísland og Portúgal mætast í Búdapest 14. janúar, þegar þau hefja keppni á EM. Ísland leikur fyrst tvo vináttulandsleiki gegn Litháen á Íslandi, 7. og 9. janúar.

Með Íslandi og Portúgal í riðli eru Hollendingar, undir stjórn Erlings Richardssonar, og Ungverjar sem verða á heimavelli. Tvö efstu liðin komast áfram í milliriðil sem einnig verður leikinn í Búdapest.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×