Innlent

Þór­ólfur hringdi í Kára: Ís­lensk erfða­greining tekur sýnin innan­lands að sér

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. Vísir/Vilhelm

Íslensk erfðagreining hefur á nýjan leik tekið að sér greiningu á sýnum innanlands. Gríðarlegt álag hefur verið í greiningu sýna á höfuðborgarsvæðinu undanfarið og biðtími verið allt að 72 klukkustundir eftir niðurstöðu.

839 greindust innanlands í gær og 87 á landamærum. Þórólfur vekur athygli á auknum fjölda jákvæðra sýna á Keflavíkurflugvelli. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir vonast þó til þess að faraldurinn sé að ná hámarki hér á landi. Álagið á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans sé gríðarlegt.

„Við erum komin yfir hámarksgetu sýkla- og veirufræðideildar,“ segir Þórólfur. Á sjöunda þúsund sýna voru greind í gær og annar deildin ekki eftirspurn. Sýkla- og veirufræðideild Landspítalans getur ekki afgreitt meira en fjögur til fimm þúsund sýni á dag.

„Þórólfur Guðnason hringdi í mig í gærkvöldi og sagði að veirufræðistofan uppi á Landspítala væri orðin býsna þreytt, þau væru farin að dragast aftur úr,“ segir Kári.

Sú aðstoð hafi hafist í morgun. Íslensk erfðagreining sjái um skimun á innanlandssýnum en Landspítalinn sjái um greiningar á sýnum frá landamærum.

Kári segir jafnframt að í byrjun árs 2022 ætli Íslensk erfðagreining að fara í slembiúrtök úr samfélaginu og í framhaldinu mæla mótefni til að átta sig betur á því hve útbreidd veiran sé í samfélaginu.

Hann telur líklegt að þeir sem greinast smitaðir séu bara hluti þeirra sem séu í raun smitaðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×