Innlent

Fresta vinnu­sótt­kví vegna mis­taka

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn ríkislögreglustjóra
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn ríkislögreglustjóra Vísir/Vilhelm

Áætluð útvíkkun um vinnusóttkví, sem átti að taka gildi á hádegi í dag, hefur verið frestað. Til stendur að funda nánar með öllum hlutaðeigandi hagsmunaaðilum í dag.

Ingibjörg Lilja Ómarsdóttir hjá Almannavarnadeild segir að fresta hafi þurft útvíkkun leiðbeininga um vinnusóttkví vegna útfærsluatriða. Tala hafi þurft við alla hagsmunaaðila og tími hafi ekki gefist í að klára málið í dag. 

Eins og fyrr segir stendur til að funda með öllum hagsmunaaðilum sem að málinu koma en Ingibjörg segir ekki ljóst hvenær niðurstaða eða endanlegar leiðbeiningar um vinnusóttkví muni liggja fyrir. Það muni væntanlega skýrast fljótlega.

Í frétt mbl.is um málið segir að Víðir Reynisson hafi gert mistök við undirbúning verkefnisins.  Víðir hafi gleymt að hafa samband við fulltrúa ASÍ og seinkunina megi í raun skrifa á hann af þeim sökum. Hann hafi því fundað með hagsmunaaðilum í morgun.

Í tilkynningu á vef Samtaka atvinnulífsins í gær sagði að samtökin og aðilar hafi kallað eftir sveigjanleika af hálfu yfirvalda, svo hægt væri að tryggja starfsemi fyrirtækja í landinu í ljósi víðtækrar dreifingar Covid-smita í samfélaginu. Ákallinu hafi verið svarað með breyttum reglum um vinnusóttkví.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×