Handbolti

Ísland á EM 2022: Guttarnir sem geta orðið að stórmóta-mönnum á þessu EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Teitur Örn Einarsson sló í gegn hjá SG Flensburg-Handewitt í Þýskalandi í vetur og var fljótur að vinna sér inn langtímasamning.
Teitur Örn Einarsson sló í gegn hjá SG Flensburg-Handewitt í Þýskalandi í vetur og var fljótur að vinna sér inn langtímasamning. Getty/ Jörg Schüler

Vísir kynnir leikmenn íslenska handboltalandsliðsins sem gætu sprungið út á EM í handbolta 2022.

Íslenska karlalandsliðið hefur leikið á Evrópumótinu í handbolta í föstudagskvöldið en Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari hefur valið tuttugu manna leikmannahóp fyrir þetta EM.

Vísir ætlar að kynna leikmenn liðsins með því að skipta þá niður á fjóra mismunandi hópa eftir stöðu þeirra innan liðsins og hlutverk þeirra í hópnum í ár sem og á síðasta stórmóti sem var HM í Egyptalandi fyrir ári síðan.

Strákarnir okkar héldu til Búdapest í gær þar sem liðið leikur í B-riðli ásamt Portúgal, Hollandi og Ungverjalandi. Tvö efstu liðin komast áfram í milliriðil en hann fer einnig fram í Búdapest.

Í þriðja hlutanum í dag þá tökum við fyrir þá leikmenn liðsins sem gætu sprungið út á Evrópumótinu í handbolta í ár.

Í þennan hóp setjum við leikmennina Ágúst Elí Björgvinsson, Daníel Þór Ingason, Elvar Ásgeirsson, Kristján Örn Kristjánsson, Orra Frey Þorkelsson og Teit Örn Einarsson. Hér erum við komin með nýliða eða reynslulitla leikmenn liðsins en oftar en ekki er það einn eða tveir úr hópi slíkra leikmanna sem slær í gegn á stórmótum íslenska liðsins.

Oftar en ekki eru það einn til tveir leikmenn íslenska liðsins sem stimpla sig inn hjá þjóðinni á hverju stórmóti. Ísland hefur varla misst af stórmóti í janúar í langan tíma og það er á þeim tíma sem ungir leikmenn og aðrir geta gripið tækifærið og orðið að strákunum okkar.

Ágúst Elí Björgvinsson er einn af þremur markvörður íslenska liðsins á mótinu.EPA-EFE/DANIEL KOPATSCH
  • Ágúst Elí Björgvinsson
  • 26 ára markvörður
  • Félag: KIF Kolding í Danmörku
  • 41 landsleikir og 1 landsliðsmark
  • Fyrsta stórmótið: EM 2018 í Króatíu
  • Fjórða stórmótið með íslenska landsliðinu (Annað Evrópumótið)
  • 16 leikir og 0 mörk á stórmótum
  • -------------------------------

  • Matspjaldið hans Ágústs Elísar:
  • Mikilvægi: B-
  • Reynsla: C+
  • Hæfileikar: C+
  • Hlutverk: C
  • Pressa: C-

Ágúst Elí Björgvinsson hefur verið í kringum landsliðið á síðustu stórmótum en oftast í hlutverki varamarkvarðar. Hann spilaði í samtals rúman klukkutíma á HM í fyrra en besti leikur hans var þegar hann kom sterkur inn í fyrsta leik á móti Portúgal þegar hann varði 10 skot eða 43 prósent skota sem komu á hann.

Ágúst Elí fékk samt fá tækifæri eftir það og spilaði minnst af þremur markvörðum íslenska liðsins á mótinu. Aftur eru þrír markverðir í hópnum á þessu stórmóti og þeir sömu og í fyrra. Það búast flestir við því að Björgvin Páll og Viktor Gísli séu á undan honum í goggunarröðinni.

Ágúst býr hins vegar að reynslu síðustu ára og hefur verið að gera fína hluti í dönsku deildinni þar sem hann hefur varið 28 prósent skota og 9 af 45 vítum sem er 20 prósent vítavarsla. Hann veit það að hann þarf að grípa tækifærið þegar það gefst því ekki er víst að þau verð mörg á mótinu.

Daníel Þór Ingason er kominn aftur inn í íslenska landsliðið.Vísir/Andri Marinó
  • Daníel Þór Ingason
  • 26 ára vinstri skytta og varnarmaður
  • Félag: Bailingen-Weilstetten í Þýskalandi
  • 34 landsleikir og 9 landsliðsmörk
  • Fyrsta stórmótið: HM 2019 í Danmörku og Þýskalandi
  • Annað stórmótið með íslenska landsliðinu (Fyrsta Evrópumótið)
  • 8 leikir og 0 mörk á stórmótum
  • ----------------------------------

  • Matspjaldið hans Daníels Þórs:
  • Mikilvægi: C
  • Reynsla: C
  • Hæfileikar: C+
  • Hlutverk: D
  • Pressa: D

Daníel Þór Ingason átti ekki að vera með á þessu Evrópumóti en kom inn í hópinn þegar Sveinn Jóhannsson meiddist á æfingum liðsins. Daníel var ekki með á síðustu tveimur stórmótum en hans eina mót vat á HM 2019.

Daníel Þór skipti yfir til Þýskalands fyrir þetta tímabil og spilar með Bailingen-Weilstetten. Þetta er hans fyrsta tímabil í bestu deild heims og er eins og fram að þessu með landsliðinu að spila mest í varnarleiknum.

Þegar Daníel var síðast með íslenska landsliðinu á stórmóti þá var hann leikmaður Hauka á Íslandi nú hefur spilað tvö tímabil í Danmörku og hálft tíma í Þýskalandi. Sú reynsla skilar sér vonandi þegar Daníel fært tækifæri á þessu móti.

Elvar Ásgeirsson er kominn á stórmót en hefur enn ekki spilað A-landsleik.Vísir/Vilhelm
  • Elvar Ásgeirsson
  • 27 ára leikstjórnandi
  • Félag: Nancy í Frakklandi
  • Nýliði í landsliðinu
  • Fyrsta stórmótið: EM 2022 í Ungverjalandi og Slóvakíu
  • Nýliði
  • ----------------------
  • Matspjaldið hans Elvars:
  • Mikilvægi: D
  • Reynsla: D
  • Hæfileikar: C+
  • Hlutverk: D
  • Pressa: D

Elvar Ásgeirsson gæti orðið einn af fáum íslensku landsliðsmönnum í sögunni sem spilar sinn fyrsta leik á stórmóti. Elvar mætir á mótið sem algjör nýliði. Hann hefur enn ekki náð að spila A-landsleik á ferlinum og þetta er því auðvitað hans fyrsta stórmót.

Elvar steig stóra skrefið út í atvinnumennsku í febrúar 2019 og eyddi fyrstu tímabilum sínum með TVB 1898 Stuttgart. Eftir að hafa fengið frekar fá tækifæri þá skipti hann yfir til franska liðsins Nancy tveimur árum síðar.

Elvar hefur spilað sig inn í landsliðið með góðri frammistöðu sinni í frönsku deildinni í vetur þar sem hann er með 47 mörk, 14 stoðsendingar og 53 prósent skotnýtingu í tólf leikjum. Nú verður gaman að sjá hvað hann hefur lært á þessum fyrstu þremur árum í atvinnumennsku.

Kristján Örn Kristjánsson hefur verið að spila frábærlega í frönsku deildinni í vetur.EPA-EFE/Anne-Christine Poujoulat
  • Kristján Örn Kristjánsson
  • 24 ára hægri skytta
  • Félag: Pays d'Aix Université Club í Frakklandi
  • 12 landsleikir og 18 landsliðsmörk
  • Fyrsta stórmótið: HM 2021 í Egyptalandi
  • Annað stórmótið með íslenska landsliðinu (Fyrsta Evrópumótið)
  • 4 leikir og 4 mörk á stórmótum
  • ----------------------------------

  • Matspjaldið hans Kristjáns Arnar:
  • Mikilvægi: B
  • Reynsla: C
  • Hæfileikar: B
  • Hlutverk: B
  • Pressa: B-

Kristján Örn Kristjánsson lét aðeins vita af sér á heimsmeistaramótinu í fyrra og hefur verið að skapa sér nafn í frönsku deildinni að undanförnu. Hann skoraði reyndar bara fjögur mörk á HM 2021 en sýndi að hann getur komið með aðra vídd í sóknarleik íslenska liðsins.

Kristján Örn er mikil skytta sem hefur verið að stíga skref upp á við undanfarin ár. Hann fór úr Fjölni í ÍBV og þaðan út í atvinnumennsku. Leiðin lá til Frakklands og þar hefur hann verið frábær í vetur.

Kristján hefur skorað 5,4 mörk í leik með þriðja besta liði frönsku deildarinnar, öll mörkin hans hafa komið utan af velli og hann er að nýta 59 prósent skota sinna sem er frábær nýting. Það eru þessar tölur sem gefa ástæðu til bjartsýni að Kristján geti slegið í gegn á þessu móti.

Orri Freyr Þorkelsson hefur bara spila einn landsleik og er kominn á sitt fyrsta stórmót.Vísir/Vilhelm
  • Orri Freyr Þorkelsson
  • 22 ára vinstri hornamaður
  • Félag: Elverum í Noregi
  • 1 landsleikir og 1 landsliðsmark
  • Fyrsta stórmótið: EM 2022 í Ungverjalandi og Slóvakíu
  • Nýliði
  • --------------------------------
  • Matspjaldið hans Orra Freys:
  • Mikilvægi: B
  • Reynsla: D
  • Hæfileikar: B
  • Hlutverk: C
  • Pressa: C

Orri Freyr Þorkelsson er að taka stór skref þessi misserin. Hann fór út í atvinnumennsku í fyrsta sinn í sumar og er nú að fara taka þátt í sínu fyrsta stórmóti með íslenska landsliðinu.

Orri hafði staðið sig mjög vel með Haukunum hér heima áður en hann fór út og hann er að gera mjög fína hluti á fyrsta tímabili með norska félaginu Elverum. Orri hefur skorað 4,7 mörk í leik með Elverum í norsku deildinni og er ekki að taka vítin eins og hjá Haukum. Elverum er líka búið að vinna alla deildarleiki sína.

Orri er ungur enn og verður líklegast ekki meira en varamaður Bjarka Más Elíssonar á þessu móti. Hann á aðeins einn leik að baki með A-landsliðinu og er því enn nýliði í þessum hóp hvað þá á stórmóti eins og EM. Hann hefur líka spilað mun minna hlutverk með Elverum í Meistaradeildinni þar sem hann er bara með tvö mörk samanlagt á tímabilinu. Orri er hins vegar skotviss og stórefnilegur hornamaður sem gæti nýtt tækifærið ef það gefst.

Teitur Örn Einarsson hefur sýnt með góðum leik í þýsku deildinni og Meistaradeildinni að hann er klár á stóra sviðið.Vísir/Andri Marinó
  • Teitur Örn Einarsson
  • 23 ára hægri skytta
  • Félag: SG Flensburg-Handewitt í Þýskalandi
  • 21 landsleikur og 22 landsliðsmörk
  • Fyrsta stórmótið: HM 2019 í Danmörku og Þýskalandi
  • Annað stórmótið með íslenska landsliðinu (Fyrsta Evrópumótið)
  • 8 leikir og 9 mörk á stórmótum
  • --------------------------------

  • Matspjaldið hans Teits Arnar:
  • Mikilvægi: B
  • Reynsla: B-
  • Hæfileikar: B+
  • Hlutverk: B
  • Pressa: B

Teitur Örn Einarsson er mættur á sitt fyrsta stórmót í þrjú ár eftir að hafa tekið eitt óvæntasta skref íslensk handboltamanns í langan tíma. Teitur hafði spilað með sænska liðinu Kristianstad í meira en þrjú tímabil síðan að hann yfirgaf Selfoss árið 2018 en í október kom stóra tækifærið.

Teitur fékk samning hjá þýska stórliðinu SG Flensburg-Handewitt. Hann átti fyrst að hjálpa liðinu í þeim miklu meiðslum sem herjuðu á leikmannahóp þess en frábær frammistaða Selfyssingsins breytti því.

Teitur greip tækifærið og stóð sig svo vel að samningurinn sem átti að vera bara út tímabilið var framlengdur til júní 2024. Teitur hefur skorað 39 mörk í fyrstu ellefu deildarleikjunum og það sem meira er þá hefur hann skorað 29 mörk í fyrstu sex leikjunum í Meistaradeildinni.

Teitur nýtti tækifærið frábærlega hjá Flensburg liðinu og nú er bara vonandi að hann geti líka stimplað sig inn hjá íslenska landsliðinu á þessu móti. Hæfileikarnir eru svo sannarlega fyrir hendi hjá þessari miklu skyttu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×