Handbolti

Ýmir: Geðveikt að soga þetta í sig og drepa svo niður í höllinni

Sindri Sverrisson skrifar
Ýmir Örn Gíslason í glímu við Mate Lekai í sigrinum gegn Ungverjum í dag.
Ýmir Örn Gíslason í glímu við Mate Lekai í sigrinum gegn Ungverjum í dag. EPA-EFE/Tamas Kovacs

„Ég er rosalega sáttur. Við erum með fullt hús stiga en núna hefst bara nýtt mót,“ sagði Ýmir Örn Gíslason sigurreifur eftir sigurinn gegn Ungverjalandi á EM í handbolta í dag.

Ýmir var spurður hvernig líkamleg og andleg heilsa væri hreinlega eftir þennan háspennuleik, þar sem hann glímdi auk þess við línutröllið magnaða Bence Bánhidi.

„Ég held að ég sé ennþá svo hátt uppi að ég næ ekki að átta mig á því. En ég veit að ég er þreyttur, bæði líkamlega og andlega. Það voru mikil læti í höllinni og það var geðveikt að soga þetta inn í sig, og hvað þá að vinna leikinn og drepa aðeins niður í höllinni og heyra svo bara í okkar áhorfendum,“ sagði Ýmir.

Klippa: Ýmir eftir sigurleikinn gegn Ungverjum

„Þetta er ekki eðlilegt, hvað við erum með marga Íslendinga hérna að fylgja okkur. Þessi stuðningur er ómetanlegur. Þetta er ótrúlegt,“ bætti hann við.

Ýmir á eflaust fyrir höndum langan feril í atvinnumennsku og með landsliðinu, en sigurinn í kvöld mun eflaust lifa lengi í minningunni:

„Þetta er sá sætasti eins og staðan er núna. Þetta var alveg geðveikt. Alvöru liðsheild. Ekki hætta, bara halda áfram, sama hvað gerist, í vörn og sókn. Við gáfumst ekki upp, og ég held að við séum líka orðnir betri í að „klára“ leiki. Það er stór punktur í þessu líka.“

En hvernig var eiginlega að glíma við Bánhidi?

„Hann er stór og þungur, með háa hendi líka og grípur helvíti mikið. Við gerðum ekki nógu vel fyrstu tuttugu mínúturnar og Bjöggi [Björgvin Páll Gústavsson] kom með þennan punkt, að við þyrftum bara að bakka niður því hann var alveg með þá fyrir utan (skyttur Ungverja). Hann stóð við það. Einhverjir boltar láku inn eins og gengur og gerist en þetta lokaðist betur í seinni hálfleik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×