Handbolti

Viktor Gísli í úr­vals­liði EM en ekki pláss fyrir Ómar Inga

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson er í marki úrvalsliðs Evrópumótsins í handbolta.
Viktor Gísli Hallgrímsson er í marki úrvalsliðs Evrópumótsins í handbolta. EPA-EFE/Anne-Christine Poujoulat

Úrvalslið Evrópumótsins í handbolta er klárt. Markvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson er í sjö manna draumaliði mótsins en ekki er pláss fyrir hinn magnaða Ómar Inga Magnússon sem gæti enn endað sem markahæsti leikmaður mótsins.

Jim Gottfridsson, leikmaður Svía, var valinn verðmætasti leikmaður mótsins en frábær frammistaða hans þýðir að Svíþjóð er komið alla leið í úrslit EM.

Gottfridsson hefur skorað 33 mörk og gefið 47 stoðsendingar til viðbótar. Þetta er í annað skiptið sem Gottfridsson hlýtur nafnbótina en hann var einni valinn verðmætasti leikmaður EM 2018 þegar Svíþjóð endaði í öðru sæti. 

Hann vonast eflaust eftir betri niðurstöðu í úrslitaleiknum að þessu sinni. Þá var Oscar Bergendahl, liðsfélagi Gottfridsson, valinn besti varnarmaður mótsins.

Úrvalslið EM er eftirfarandi:

Markvörður: Viktor Gísli Hallgrímsson (Ísland)

Vinstra horn: Milos Vujovic (Svartfjallaland)

Hægra horn: Aleix Gomez (Spánn)

Vinstri skytta: Mikkel Hansen (Danmörk)

Hægri skytta: Mathias Gidsel (Danmörk)

Miðja: Luc Steins (Holland)

Línumaður: Johannes Golla (Þýskaland)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×