Handbolti

Hetja Svía í gær skoraði á sextán sekúndna fresti í úrslitaleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Niclas Ekberg fagnar sigurmarki sínu í úrslitaleik EM 2022.
Niclas Ekberg fagnar sigurmarki sínu í úrslitaleik EM 2022. Getty/Kolektiff Images/DeFodi

Niclas Ekberg tryggði Svíum Evrópumeistaratitilinn og sinn fyrsta titil í tvo áratugi þegar hann skoraði sigurmarkið í úrslitaleik Svía og Spánverja í gær.

Þetta var fimmta mark Ekberg í úrslitaleiknum og var hann markahæstur hjá Evrópumeisturunum ásamt línumanninum Oscar Bergendahl.

Bergendahl var inn á vellinum í 36 mínútur og 8 sekúndur en Ekberg spilaði aftur á móti bara í eina mínútur og tuttugu sekúndur.

Sigurmarkið skoraði Ekberg úr vítakasti þegar leiktíminn var liðinn.

Hann kom í raun bara inn á völlinn til að taka vítin og skoraði úr fjórum af fimm vítum sínum. Þegar hann klikkaði á víti þá tók hann sjálfur frákastið og skoraði.

Ekberg, sem datt út á miðju móti vegna kórónuveirusmits, fékk að koma aftur inn í sænska liðið fyrir úrslitaleikinn.

Hann náði því að skora þessi fimm mörk sínum á þeim áttatíu sekúndum sem hann spilaði í úrslitaleiknum sem gerir mark á sextán sekúndna fresti.

Niclas Ekberg er 33 ára og hann var búinn að spila með sænska landsliðinu í fjórtán ár eða frá 2008 en þetta var fyrsti titill hans með landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×