Á sama tíma eftir útgáfu PlayStation 4 hafði Sony framleitt og selt 20,2 milljónir tölva.
Í ársfjórðungsuppgjöri Sony kemur fram að tekjur leikjadeildar fyrirtækisins lækkuðu milli ára, úr um 7,7 milljörðum dala árið 2020 í um 7,1 milljarð í fyrra. Samkvæmt frétt Engadget hækkaði hagnaður leikadeildarinnar þó þar sem Sony tapar í raun peningum á hverri seldri leikjatölvu.
Hiroki Totoki, fjármálastjóri Sony, sagði í kjölfar birtingar uppgjörsins að eftirspurn eftir PS5-leikjatölvum væri mikil. Skortur á aðföngum og hlutum í tölvurnar eins og tölvuflögum kæmi þó niður á framleiðslunni. Forsvarsmenn Sony búast við að þessi vandi lagist ekki í bráð.
Skorturinn á hálfleiðurum hefur komið niður á fjölmörgum fyrirtækjum í fjölmörgum geirum iðnaðar á undanförnum mánuðum. Bílaframleiðendur og tæknifyrirtæki hafa orðið hvað verst fyrir barðinu á skortinum.
Forsvarsmenn Sony hafa lækkað framleiðslumarkmið sín fyrir yfirstandandi fjárhagsár (sem hefst í apríl) úr 14,8 milljónum leikjatölva í 11,5 milljónir. Ekki er langt síðan markmiðið var lækkað úr sextán milljónum í 14,8.
Sjá einnig: Hægja á framleiðslu PS5 vegna skorts
Leikjadeild Sony er helsta tekjulind fyrirtækisins en þaðan kom um fjórðungur tekna og hagnaðar fyrirtækisins á síðasta ársfjórðungi.
Forsvarsmenn fyrirtækisins hækkuð þó hagnaðarspá þeirra fyrir uppgjörsárið um heil fimmtán prósent vegna gífurlegrar velgengni nýjustu kvikmyndarinnar um Spider-Man. Reuters fréttaveitan segir að tekjur kvikmyndadeildar Sony hafi sjöfaldast milli ára og þá að miklu leyti vegna kvikmyndarinnar sem heitir Spider-Man: No Way Home.